6.12.2016 10:30

Þriðjudagur 06. 12. 16

Þegar forsíða Fréttablaðsins í dag er lesin vaknar spurning um hvort á döfinni sé mál í hæstarétti sem varðar hagsmuni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Forsíðan er misnotuð á svipaðan hátt og gert var á tíma Baugsmálsins þegar blaðamenn Fréttablaðsins gengu erinda eigenda sinna til að bæta stöðu þeirra við meðferð sakamálsins.

Augljóst er að ákveðið hefur verið með aðstoð almannatengla að gera aðför að hæstaréttardómurum og þó einkum að Markúsi Sigurbjörnssyni, fráfarandi forseta hæstaréttar. Eins og oft áður þegar um slíka skipulagða aðför er að ræða er Kastljós sjónvarpsins notað til að veita henni einskonar gæðastimpil – sá stimpill er að vísu orðinn svo útjaskaður að hann skaðar frekar málstað þeirra sem grípa til hans en hitt.

Upphlaup af þessu tagi eru oft svo illa ígrunduð og illa unninn að þau missa marks. Forvitnilegast við þau er að sjá hverjir eiga aðild að þeim og hverjir bíta á öngulinn.

Skúli Magnússon, formaður dómarafélagsins, stígur varlega til jarðar eins og eðlilegt er að dómari geri telji hann sig ekki hafa öll gögn málsins undir höndum. Hann sagði meðal annars á rás 2 í morgun:

„Það er ljóst að þarna hefur upplýsingum verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega ýta við möguleikum á því að endurupptaka þessi mál. Það sem við hljótum að bíða eftir núna er að þessir dómarar sem eiga í hlut hreinlega geri hreint fyrir sínum dyrum og segi okkur bæði kollegum sínum, dómurum, og samfélaginu og hvort þeir tilkynntu þetta eða ekki. Síðan er það annað mál hvort þeir voru vanhæfir í einstökum málum eða ekki og það er eitthvað sem þarf að skoða með tilliti til hvers og eins máls.“

Karl Garðarsson, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins, þarf ekki að bíða eftir frekari upplýsingum. Hann segir á Facebook-síðu sinni vegna Kastljóssins:

„Væntanlega verða gerðar kröfur um endurupptöku fjölmargra mála sem tengjast hruninu, vegna meints vanhæfis Markúsar Sigurbjörnssonar forseta Hæstaréttar til að fjalla um þau. Dómskerfið er því í uppnámi.“

Það er einmitt tilgangur þeirrar herferðar á hendur dómurum hæstaréttar sem nú er hafin að ná því markmiði sem Karl lýsir þarna. Þá þurfa menn aðeins að svara spurningunni cui bono? Svarið við henni segir alla söguna. Skyldi Kastljósið eða fréttastofa ríkisútvarpsins birta það?