24.12.2016 15:30

Laugardagur 24. 12. 16

Gleðileg jól!

Í Morgunblaðinu birtast fréttir um að þrýst sé að Þingvallanefnd um leyfi til að reisa 1.200 manna veitingahús í landi Gjábakka innan þjóðgarðsins að austanverðu. Nefndin hefur þegar hafnað þessum tilmælum en aðstandandi verkefnisins segir í blaðinu í dag: „Við erum ekki af baki dottnir og munum kynna verkefnið áfram.“ 

Til að tryggja að sem minnst mengun verði af starfseminni er ætlunin að forvinna mat á Laugarvatni og jafnframt að þvo allt notað leirtau utan þjóðgarðsins þannig að skolvatn verði í lágmarki. Kostnaður er talinn um 1.400 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að ríkið eignist veitingahúsið og það sem því fylgir á 30 árum. Loks segir í frétt Morgunblaðsins að aðferðafræði og við fjármögnun Hvalfjarðarganga á sínum tíma sé fyrirmynd og ekki sé reiknað með fjármagni frá ríkinu í verkið.

Af fréttinni má ráða að fyrir þeim sem standa að kynningu á þessu verkefni vaki að þrýsta á Þingvallanefnd sem kjörin verður af nýkjörnu alþingi svo að hún fallist á hugmyndir þeirra og kröfur. Ég vona að svo verði ekki.

Fyrir um hálfri öld voru þau mistök gerð að leyfa nokkra sumarbústaði í Gjábakkalandi. Vegna þungrar gagnrýni var tekið fyrir slík leyfi og jafnframt ákveðið að leggja kvaðir á eigendur bústaða þar varðandi nýtingu vatns og rafmagns. Á þessum árum var búið á Gjábakka, eftir að búskap þar var hætt nýtti þjóðgarðurinn hús þar fyrir starfsmenn sína. Eftir eldsvoða í húsinu var það rifið.

Beri menn hag þjóðgarðsins og gesta hans fyrir brjósti er fráleitt að heimila 1.200 manna veitingastað í Gjábakkalandi og mynda þar nýja þungamiðju í þjóðgarðinum eins og það er orðað í kynningargögnum vegna staðarins. Eitt er mengunarhætta á vatnakerfi Þingvallavatns annað er mannvirkja- og ljósmengun í austurhluta þjóðgarðsins sem gjörbreytir allri sýn yfir hann frá Hakinu.

Vilji menn fjölga mannvirkjum við þjóðgarðinn á að gera það vestan við hann, til dæmis í Skógarhólum fyrir vestan Ármannsfell. Fyrir dyrum er að bæta akveginn yfir Uxahryggi og þá myndast ný hringleið um Þingvelli, að þessu sinni til norðurs og til Borgarfjarðar. Þegar fram líða stundi verður hún ekki síður vinsæl en leiðin um Geysi og Gullfoss.

Skorað er á Þingvallanefnd að stand fast gegn öllum framkvæmdum í Gjábakkalandi.