11.12.2016 14:15

Sunnudagur 11. 12. 16

ÍNN-viðtal mitt við Davíð Loga Sigurðsson um bók hans Ljósin á Dettifossi er komið á netið og má sjá það hér.

Ágreiningurinn innan forystusveitar Framsóknarflokksins tók á sig nýja mynd í dag, nokkrum dögum fyrir 100 ára afmælishátíð flokksins í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember. Frá því var skýrt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður flokksins, fyrrv. forsætisáðherra og formaður flokksins, ætlaði ekki að sækja hátíðina í Þjóðleikhúsinu heldur halda sína eigin á Akureyri.

Var sagt frá frumkvæði Sigmundar Davíðs á vefsíðunni kaffid.is á Akureyri 10. desember en þar segir meðal annars af þessu tilefni:

„Þeir framsóknarmenn sem Kaffið.is ræddi við voru á einu máli um að sms-skilaboðin frá Sigmundi Davíð hlytu að draga dilk á eftir sér. Fyrrum formaður flokksins, sem lítilsvirti aldarafmælið með þessum hætti, hlyti að vera á útleið úr flokknum og væri varla líft þar öllu lengur. Hann yrði þá væntanlega þingmaður í eins manns flokki.“

Framsóknarflokkurinn hlaut átta þingmenn kjörna í kosningunum 29. október 2016, fækkaði þeim um 11 frá kosningunum 2013. Flokknum hefur verið haldið til hlés í stjórnarmyndunarviðræðunum þótt Sigurður Ingi Jóhannsson flokksformaður sitji sem forsætisráðherra í starfsstjórninni.

Þeir sem líta til samstarfs við Framsóknarflokkinn velta fyrir sér hve margir þingmanna hans stæðu að baki ríkisstjórn yrði hún mynduð með aðild hans. Ágreiningurinn vegna afmælisins staðfestir að Sigurður Ingi getur ekki treyst á Sigmund Davíð. Hvað með Gunnar Braga Sveinsson? Eru þingmenn Framsóknarflokksins í raun aðeins sex þegar kemur að stjórnarmyndun?

Ögmundur Jónasson, fyrrv. innanríkisráðherra, kemst í erlendar fréttir vegna yfirlýsinga um að hann hefði í ráðherratíð sinni ákveðið að standa frekar með Julian Assange hjá WikiLeaks en FBI, bandarísku alríkislögreglunni. Taldi Ögmundur menn FBI hafa komið hingað til lands án leyfis og ætlunin hafi verið að blekkja Assange. Sú saga sem gerðist árið 2011 hefur örugglega ekki öll verið skráð og enn eru of margir lausir endar á málinu til að unnt sé að sjá það í heild.

Hvað sem því líður liggur nú fyrir að bandarískar leyniþjónustustofnanir telja nær fullsannað að Rússar hafi stolið tölvubréfum frá stjórn bandaríska Demókrataflokksins og John Podesta, helsta ráðgjafa Hillary Clinton, og komið þeim til Julians Assange og þaðan inn á WikiLeaks til stuðnings Donald Trump í kosningabaráttunni.

Trump svarar fullum hálsi og segist ekki treysta CIA eða öðrum leyniþjónustumönnum. Þeir hafi ranglega haldið Saddam Hussein eiga gjöreyðingarvopn í Írak. Er fleira líkt með skoðunum Ögmundar og Trumps?