20.12.2016 10:15

Þriðjudagur 20. 12. 16

Deilur fréttamanna ríkisútvarpsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, eiga ekkert skylt við fréttir heldur eru í ætt við pólitískt karp þar sem rifist er um hver sagði hvað við hvern og hvenær. Af því að fréttamaður ríkisútvarpsins stendur í þessum útistöðum við Sigmund Davíð er þessu útvarpað í fréttatíma stöðvarinnar. Hér var nefnt að óháðum aðila yrði falið að gera úttekt á deilunni í von um að leiða mætti hana til lykta.

Sigmundur Davíð hefur brugðist vel við hugmynd um slíka úttekt. Stjórnendum útvarpsins ætti að vera sérstakt kappsmál að tekið sé á þessu deilumáli þannig að ekki sé vegið enn frekar að trúverðugleika opinbera hlutafélagsins. Forystugrein Morgunblaðsins snýst í dag um starfsaðferðir fréttastofnunnar. Þar segir:

„Fréttakona „RÚV“ á Akureyri sem leynir því minna en sumir kollegarnir hversu vilhöll hún er bað Sigmund Davíð, sem hún rekur iðulega hornin í, um viðtal í tilefni aldarafmælis Framsóknarflokksins. En erindið var að gera Sigmund tortryggilegan fyrir að sjást lítið í þingsalnum.[...]

Fréttakonan reyndi að skrökva sig frá því að hún hefði fengið viðtal við Sigmund á fölskum forsendum. Þó er þetta haft eftir henni: „Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið. Sigmundur Davíð tók mér vel og bað mig að bíða andartak, áður en við tókum viðtalið. Hann spurði mig aldrei um efni þess fyrirfram, eins og stjórnmálamenn gera þó gjarnan.“ Telur fréttakonan að biðji hún um viðtal við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins í tilefni aldarafmælis, þá beri honum að spyrja hvort viðtal um aldarafmæli flokksins fjalli um aldarafmæli flokksins?“

Eiður Svanberg Guðnason bregst á þennan hátt við hugmyndinni um að óháður aðili fari yfir samskiptasögðu fréttastofunnar og Sigmundar Davíðs:

„Rannsókn á fréttamennsku? Eru þetta skilaboð til fréttamanna um að halda sig á mottunni í samskiptum við stjórnmálamenn? Man ekki eftir að hafa heyrt svona tillögu áður. Í Póllandi og Tyrklandi kreppa stjórnvöld að blaðamönnum, - vægt til orða tekið.“ 

Þessi samanburður fellur um sjálfan sig nema menn vilji afsaka það sem gerst hefur í Póllandi og Tyrklandi. Áður hefur verið gerð úttekt á efnistökum fréttastofunnar og hún birst í skýrslu til alþingis, sé rétt munað.