10.12.2016 13:45

Laugardagur 10. 12. 16

Á það hefur verið bent hér á þessum stað í vikunni að Fréttablaðið var notað til þess að gera hæstaréttardómara tortryggilega vegna beinna eða óbeinna fjárhagslegra tengsla við Glitni á sínum. Birtist þetta best í stórri forsíðumynd blaðsins miðvikudaginn 7. desember og texta undir henni. Þar eru fjórir dómarar hæstaréttar á leið úr Dómkirkjunni að lokinni þingsetningarmessu. Var þess meðal annars getið að systir eins dómarans hefði átt í Glitni!

Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Baugs og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er aðalritstjóri fjölmiðlaveldisins 365 og þar með Fréttablaðsins. Hún skrifar leiðara í blaðið í dag þar sem hún er steinhissa á að framganga blaðsins gagnvart dómurunum hafi vakið undrun. Allt hafi verið unnið eftir bókinni um faglega fréttamennsku með almannahag að leiðarljósi. „Samt þurfa fjölmiðlar að sitja undir gamalkunnu stefi um að þeir gangi annarlegra erinda,“ segir hún og spyr eins og hvítvoðungur: „Getur einhver í alvöru haldið því fram að tíðindi vikunnar teljist ekki fréttnæm?“

Hún segir jafnframt frá því að af hálfu 365 hafi verið reynt að spyrja starfandi lögfræðinga og háskólafólk álits á því sem blaðið og ríkisútvarpið báru á borð fyrir almenning um þetta efni en fáir hafi tekið vel í þá málaleitan. Er aðalritstjórinn greinilega sár yfir því og segir: „Það er ekki góður vitnisburður um þessar ágætu stéttir sem beinlínis eiga að hafa borgaralega skyldu til að leyfa okkur hinum að njóta sérþekkingar sinnar.“ Sárafáir hafi þó haft „kjark til að koma fram opinberlega“.

Að fullyrða að lögfræðingar og háskólafólk hafi „borgaralega skyldu“ til að veita tafarlaus svör eða gefa álit á einhverju sem fjölmiðlar birta jafnvel án þess að fréttir séu fullunnar eins og var í þessu tilviki er í anda „freka mannsins“ svo að nefnd sé persóna sem varð til á síðum Fréttablaðsins. Athyglisvert er að aðalritstjórinn sér ástæðu til að nefna að „meirihlutinn karlar“ hafi tekið til máls um fréttaflutninginn og vill Kristín þar með greinilega ýta undir „kynjaða“ umræðu um málið.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins ræðir þessar fréttir á allt öðrum nótum en Kristín í dag. Hann segir:

„Þetta samspil fjölmiðlaveldis 365 og hins vitastjórnlausa Ríkisútvarps hefur lengi verið til staðar. Það var grímulaust núna. Forsíðan á Fréttablaðinu var ekki ein. Þær urðu fjórar í röð ásamt eftirfylgni annarra fjölmiðla Jóns Ásgeirs. Reynt var að veifa eignarhlutum dómara í bönkum eins og svimandi upphæðum, frá 15 upp í 40 milljónum, sem féllu til sem arfshlutar sem viðkomandi ætluðu sér ekki að eiga. Slíkar upphæðir væru myndarleg hlutdeild í stæðilegri verslun í Kringlu eða á Laugavegi. En í 500 milljarða króna banka viktar hún ekki.“