16.12.2016

Íhlutun Rússa vekur deilur í Washington

Morgunblaðsgrein 16. desember 2016

Sama dag og Rússar stóðu að baki her Sýrlandsstjórnar við fjöldamorð á almennum borgurum í Aleppo tilkynnti Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, að hann hefði tilnefnt Rex Tillerson, forseta og forstjóra Exxon, næsta utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Tillerson er kynntur til sögunnar sem „vinur Rússa“ sem sé svo mjög Vladimír Pútín Rússlandsforseta að skapi að hann hafi veitt honum rússnesku Vináttuorðuna.

Rússnesk stjórnvöld eru ekki aðeins að baki í blóðbaðinu í Sýrlandi. Þau voru einnig að baki þeim sem gerðu tölvuárásir í Bandaríkjunum í forsetakosningabaráttunni. Um þetta liggja fyrir ótvíræðar heimildir að mati bandarískra öryggisstofnana. Á hinn bóginn hefur mikill hiti hlaupið í deilur Bandaríkjamanna um fullyrðingar leyniþjónustustofnana um að Rússar hafi unnið gegn demókratanum Hillary Clinton til hagsbóta fyrir repúblíkanann Donald Trump.

Talsmenn Donalds Trumps, frambjóða brugðust illa við öllum spurningum fréttamanna um málið. Þeir litu þannig á að undir niðri byggi skipulögð aðför að Trump til að gera lítið úr kosningasigri hans eða jafnvel véfengja gildi kosninganna. Máttu fréttamenn hafa sig alla við til að segja að ekkert slíkt vekti fyrir þeim.

Fréttirnar frá CIA


Föstudaginn 9. desember birtu The New York Times  (NYT) og The Washington Post fréttir um að innan CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, teldu menn nær fullsannað að Rússar hefðu gert tölvuárásir á stjórn Demókrataflokksins og John Podesta, aðalráðgjafa Hillary Clinton forsetaframbjóðanda. Í árásunum hefði tölvubréfum verið stolið, þeim komið til Julian Assange og hann birt þau á WikiLeaks til að spilla fyrir Hillary Clinton í keppni hennar við Donald Trump. Kom þetta fram á fundum fulltrúa CIA með þingnefndum.

NYT sagði að CIA teldi að Rússar hefðu ekki aðeins gert tölvuárás á stofnanir demókrata heldur einnig repúblíkana, þar með á stjórn Repúblíkanaflokksins (RNC). Rússar hefðu hins vegar aðeins ákveðið að birta gögn frá demókrötum.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur ekki staðfest að RNC hafi orðið fyrir tölvuárás. Þennan mun á því sem CIA og FBI segja nýttu talsmenn Trumps sér til að halda fram þeirri skoðun að allt tal um að Rússar hefði stutt Trump væri ekki annað en liður í áróðurs- og ófrægingarherferð demókrata. Að NYT og WP hefðu samtímis birt nær samhljóma fréttir um málið frá ónafngreindum heimildarmönnum sannaði þetta. Allir vissu að blöðin vildu hlut Trumps sem verstan.

Á sjónvarpsstöðinni CNN var haft eftir embættismönnum sem vita á hvern hátt CIA leggur mál fyrir þingnefndir að niðurstaða CIA um tölvuárásirnar hefði ekki verið eins afdráttarlaus og ráða mætti af fréttum. Þá yrðu menn að átta sig á að CIA kynnti „hráar“ upplýsingar en FBI færi sér hægar við að „fullvinna“ þær. Loks bæri að líta til þess að þingmenn ólíkra flokka mætu upplýsingarnar á ólíkan hátt.

Donald Trump fór ekki leynt með afstöðu sína þegar hann var spurður um fréttir NYT og WP um málið í þættinum Fox News Sunday 11. desember: „Mér finnst þetta fáránlegt. Mér finnst þetta bara enn ein afsökunin. Ég trúi þessu ekki. Ég held að demókratar komi þessu á flot vegna þess að tap þeirra var eitt hið mesta í stjórnmálasögu lands okkar.“ Það vissi í raun enginn hver hefði staðið að baki tölvuárásunum, Rússar, Kínverjar eða kannski bara einhver heima í rúmi sínu.

Trump sagðist ekki treysta mati CIA fyrr en þeir sem hann skipaði þar til forystu hefðu tekið til starfa. Hann ætlaði ekki að hlusta á daglega skýrslugjöf frá fulltrúum CIA eftir hann yrði forseti, hann mundi fá skýrslu þegar hann þyrfti, varaforsetinn mundi hlusta á daglegu skýrsluna. „Þér er ljóst að ég veit mínu viti,“ sagði Trump við Chris Wallace, fréttamann Fox, „það þarf ekki að segja mér sama hlutinn með sama orðalagi hvern einasta dag næstu átta árin.“

Augljóst er að demókratar vilja gera sér sem mestan mat úr tölvuárásum Rússa og Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir endanlegri skýrslu frá CIA um málið áður en hann kveður Hvíta húsið sem forseti 20. janúar 2017. 

Forystumenn beggja flokka á Bandaríkjaþingi vilja að tölvuárásirnar verði rannsakaðar. Verður málið til meðferðar í nefndum þingsins.

Þingmenn og Tillerson


Þingmenn repúblíkana eru mun gagnrýnni á Rússa í yfirlýsingum sínum en Trump og þeir sem eru talsmenn hans. Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að samþykkja tilnefningu Rex Tillersons í embætti utanríkisráðherra. 

Af hálfu talsmanna Trumps er Tillerson lýst á þann hátt að hann muni „berjast og sigra“ fyrir Bandaríkin og þar með vinna að framgangi stefnu Trumps um að  skipa Bandaríkjunum í fyrsta sæti. Það sé Tillerson til ágætis að hann hafi oft samið við Pútín og Rússa um olíumál. 

Aðrir líta öðrum augum á málið, þar á meðal John McCain, áhrifamikill öldungadeildarþingmaður repúblíkana, hann sagði við Fox News laugardaginn 10. desember: „Vladimír Pútín er óþokki, ofríkismaður og morðingi, lýsi einhver honum á annan hátt er sá hinn sami einfaldlega lygari.“

Eftir að Trump tilnefndi Tillerson sagði McCain að þingnefndir mundu hlusta á skoðanir hans og spyrja hann um tengsl hans við forystumenn annarra þjóða og síðan yrði afstaða tekin til hans. 

Að baki tilnefningunni standa öflugir einstaklingar innan flokks repúblíkana eins og James Baker, fyrrv. utanríkisráðherra, Robert Gates, fyrrv. varnarmálaráðherra, og Condoleezza Rice, fyrrv. þjóðaröryggisráðgjafi og utanríkisráðherra. Gates og Rice reka saman ráðgjafarfyrirtæki þar sem Exxon er meðal viðskiptavina og er sagt að þau hafi fyrst nefnt hugmyndina um Tillerson sem utanríkisráðherra við Trump.

Víst er að það verður engin lognmolla í umræðum um samskipti Bandaríkjamanna og Rússa á næstu vikum. Þá mun enn skýrast hvernig og hvers vegna Pútín og hans menn beittu sér í kosningabaráttunni. Annarra þjóða menn fylgjast náið með öllu sem fram kemur, ekki síst Þjóðverjar sem ganga til þingkosninga á næsta ári og eru mjög á varðbergi gagnvart Rússum.

Verði unnt að túlka afstöðu Trumps og manna hans til Rússa á þann veg að þeir leggi blessun sína yfir voðaverkin í Sýrlandi eða önnur óhæfuverk í skjóli Pútíns verður það ljótur blettur á valdatöku hans og skuggi yfir lofgjörð Trumps um sjálfan sig og nánustu samstarfsmenn sína.