19.12.2016 17:45

Mánudagur 19. 12. 16

Samfylkingin fékk 31,9% í borgarstjórnarkosningunum 2014 en mælist með rétt rúm 17% í könnun fréttastofu 365 sem var gerð 12-14. desember. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar eru nú fimm talsins en yrðu fjórir ef niðurstöður kosninga yrðu á sömu leið og niðurstöður könnunarinnar en gert er ráð fyrir að 2018 verði 23 borgarfulltrúar valdir í stað 15 núna.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur með 31,9%, Samfylking 17,1%, VG 15,4%, Píratar 14,6%, BF 13% og Framsókn 4%. Meirihluti fjögurra flokka helst í borgarstjórn gangi þetta eftir.

Ekki hefur skilað sér í opinberar umræður hver er nauðsyn þess að fjölgja borgarfulltrúum úr 15 í 23. Áform voru upp um þetta á 1978 til 1982 hjá vinstri-flokkum í borgarstjórn en Sjálfstæðismenn bundu enda á áformin þegar þeir fengu að nýju meirihluta í borgarstjórn árið 1982. Óljóst er hvort ágreiningur er milli meiri- og minnihluta borgarstjórnar um fjölgun borgarfulltrúa. Á hinn bóginn hefur Halldór Halldórsson, oddviti borgarstórnarflokks Sjálfstæðismanna, vill hverfabinda val á borgartulltrúum

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Samfylkingamanninn Hjálmar Sveinsson, formann skipulagsnefndar borgarstjórnar, sem segir að ástæða þess að Reykjavíkurborg hafi ekki þrýst á um að fá fjármuni frá alþingi vegna framkvæmda á umferðarmannvirkjum í borginni sé sú að árið 2012 hafi verið samið við Vegagerðina og hið opinbera um að fá allt að einum milljarði á ári til tíu ára til þess að byggja upp almenningssamgöngur. Í staðinn myndi Reykjavík ekki ráðast í stórar framkvæmdir á borð við mislæg gatnamót á tímabilinu. Sérfræðingar segi það engu breyta þótt byggð verði mislæg gatnamót því framtíðarspár um umferðarþunga sýni að gatnakerfið muni springa ef umferð vegna einkabílsins eykst á sama hraða og hún hefur gert liðna áratugi.

Leiðin út úr þessum vanda að mati Hjálmars er að ráðast gegn einkabílnum og knýja á um að fólk noti almenningssamgöngur. „Ef umferð eykst eins mikið til ársins 2040 og hún gerði árin 1987-2012 þá verður hér allt stopp. Jafnvel þótt settir yrðu margir tugir milljarða í að byggja mislæg gatnamót,“ segir Hjálmar. „Það þýðir ekki að allir eigi að hjóla, ganga eða fara í strætó, heldur að hærra hlutfall fólks geri það en nú.“

Þessi framtíðarsýn Hjálmars er í anda heimsslitaspámanna sem ganga stundum fram á völlinn og segja við meðbræður sína: „Annaðhvort gerið þið eins og ég segi eða það kemur ykkur í koll.“ Eftir þessari forsögn starfar borgarstjórn Reykjavíkur nú og stöðnunin eykst af því að stjórnendurnir hafa talið sér trú um að hún sé óhjákvæmileg.