8.9.2003 0:00

Mánudagur, 08. 09. 03.

Klukkan 10.15 hitti ég Luo Gan einn af níu  mönnum í stjórnmálaráði kínverska kommúnistaflokksins, en hann fer með yfirstjórn dóms- og lögreglumála í Kína. Var fundur okkar í 45 mínútur og fór fram í Þjóðmenningarhúsinu.

Klukkan 12.00 var ég gestgjafi Luo Gans í hádegisverði í Þjóðmenningarhúsinu. Áður en við settumst að borðum sýndi ég honum handritin. Lauk hádegsiverðinum um klukkan 13.00 og þá ákváðu öryggisverðir hans, að Luo Gan skyldi fara út um bakdyr Þjóðmenningarhússins, þar sem nokkur hópur manna hafði komið saman til að mótmæla en einnig Kínverjar á Íslandi til að fagna. Sást í sjónvarpi, að til einhverra stympinga kom milli Sigurðar A. Magnússonar, sem stóð með spjald á vegum Amnesty, og Kínverja með rauðan fána.

Klukkan 19.30 var ég í Kastljósi sjónvarpsins hjá Kristjáni Kristjánssyni og svaraði spurningum vegna Luo Gans og skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar í hæstarétt.