10.1.2008 20:53

Fimmtudagur, 10. 01. 08.

Húsafriðunarnefnd lýsti áliti á Laugavegshúsunum og Björn Ingi Hrafnsson og Dagur B. Eggertsson, forystumenn meirhlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, sögðu, að ný staða hefði skapast. Sérfræðingar hefðu talað og ekki væri undan því vikist að taka mið af orðum þeirra - auk þess þyrfti menntamálaráðherra að taka ákvörðun!

Borgarstjórn hefur fjallað um skipulag við Laugaveginn um árabil, samt er það fyrst nú á elleftu stundu, sem sérfræðingarnir tala og setja málið í nýtt ljós - og svo er það ráðherrann.

Sundabraut hefur einnig verið um árabil til meðferðar í borgarstjórn - þótt enginn viti enn, hvar hún á að liggja, af því að borgarstjórn hefur ekki tekið ákvörðun. Síðast þurfti hún að fá mat sérfræðinga á jarðgöngum í samanburði við svonefnda eyjalausn.

Vegagerðin hefur nú lokið mati sínu og G. Pétur Matthíasson, upplýsingaulltrúi hennar, greinir frá niðurstöðunni í Fréttablaðinu og 24 stundum í morgun og segir meðal annars:

„Athugun er nú að fullu lokið og ljóst að jarðgangagerðin er tæknilega möguleg en kostnaður er hins vegar mun meiri en áður var talið eða um 24 milljarðar króna með vegtengingum. Jarðgangalausnin er þannig um 9 milljörðum króna dýrari kostur en eyjalausnin. Fyrir þennan mismun upp á 9 milljarða mætti gera mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, leggja Miklubraut í stokk vestur fyrir Lönguhlíð og Kringlumýrarbraut í stokk suður fyrir Listabraut. ......

Eyjalausnin felur ekki í sér að umferð verði aukin um Skeiðarvog en að sjálfsögðu mun Sundabrautin breyta umferðinni hvar sem hún kemur upp. Röskunin verður eigi að síður mun meiri með jarðgöngunum en eyjalausn þar sem gangamunnar verða fjórir, þar af þrír vestan megin, helmingur ganganna mun liggja undir borginni og byggja þarf veg út í sjó við Laugarnesið til að tengja göngin við Kringlumýrarbrautina. Niðurstaða Vegagerðarinnar er að innri leiðin, eyjalausnin, er tæknilega, fjárhagslega og umferðarlega mun betri kostur en jarðgangaleiðin og gefur miklu meiri arðsemi af því fjármagni sem til framkvæmdanna er varið. Vegagerðin getur því ekki mælt með að jarðgangalausn verði valin.“

Vegna Laugavegshúsanna er spurt: Hver ber kostnað af því, að ekki er staðið við ákvarðanir borgarstjórnar, þegar til kastanna kemur?

Vegna Sundabrautar er spurt: Ætlar Reykjavíkurborg að bera kostnaðaraukann við göng í stað eyjaleiðar?

Líklegt er, að borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Dags B. og Björns Inga velji þann Sundabrautarkost að bíða eftir samgönguráðherra og krefjast þess að auki, að hann borgi dýrustu leiðina til að bjarga meirihlutanum.

Meirihluta, sem ræður ekki við að semja sér málefnaskrá, er einfaldega ofvaxið að leysa mál við Laugaveg og taka ákvörðun um Sundabraut - þá er bara kallað á ráðherra sér til hjálpar.