9.1.2008 21:53

Miðvikudagur, 09. 01. 08.

Myndin um Bob Dylan í Regnboganum er of flókin. Áhorfandinn þarf að vera vel að sér um ævi Dylans til að átta sig á fléttu sögunnar. Á hinn bóginn er smellin hugmynd að fela hópi leikara að kynna hin ýmsu æviskeið söguhetjunnar. Myndin og bók Dylans Chronicles Volume One minna á, að of mikið er gert úr hlut hans sem mótmælanda á sjöunda áratugnum. Hann leit ekki á sig sem slíkan og kvartar undan því í bók sinni, að hann hafi verið stimplaður á þennan veg.

Bæði Hillary Clinton og John McCain notuðu orðið „comeback“ í sigurræðum sínum í New Hampshire - þau vísuðu þar til þess, sem Bill Clinton sagði 1992, þegar hann lenti í öðru sæti í ríkinu og kallaði sjálfan sig „the comeback kid“ af því tilefni. McCain, sem er kominn á áttræðisaldur, sagðist að vísu ekki getað sagst vera „kid“.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist undrandi á húsafriðunarnefnd vegna tillögunnar til menntamálaráðherra um friðun húsa neðst á Laugaveginum. Hvers vegna hélt borgarstjóri ekki þannig á málinu, að borgarstjórn Reykjavíkur hefði örugglega forræði þess? Hann skapaði sjálfur svigrúm fyrir húsafriðunarnefnd með því að ýta málinu á undan sér.

Stjórnsýsla í skipulags- og byggingarmálum Reykjavíkurborgar er hvorki markviss né skilvirk. Þá er sjálfstæði sveitarfélaga orðin tóm, ef sérfræðinganefnd getur vísað ákvörðunum um húsaraðir í hjarta sveitarfélags til ákvörðunar ráðherra - og það eftir að allar stofnanir sveitarfélagsins hafa komist að annarri niðurstöðu en sérfræðinganefndin. Hin pólitíska ábyrgð á slíkum skipulagsþáttum á að sjálfsögðu að hvíla á viðkomandi sveitarstjórn, svo að unnt sé að kalla hana til ábyrgðar í kosningum.