14.1.2008 19:57

Mánudagur, 14. 01. 08.

Spennandi verður að fylgjast með breytingum á þingstörfum frá og með morgundeginum, þegar alþingi tekur að starfa eftir nýjum þingsköpum. Það var vel af sér vikið hjá Sturlu Böðvarssyni, forseta alþingis, að ná þessum breytingum fram fyrir áramót - löngu var orðið tímabært að koma betri skipan á störfin í þingsalnum.

Tvisvar í viku verður í upphafi þings unnt að beina óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra og eiga fimm ráðherrar að vera skráðir til að svara hvorn daginn - það er fyrsta þingdag vikunnar og fimmtudaga kl. 10.30.

Líklegt er að stjórnarþingmenn láti meira að sér kveða í umræðum en áður. Til þessa hafa þeir haldið sig til hlés, ræða frá einhverjum þeirra hefur gjarna orðið stjórnarandstöðuþingmanni tilefni til tveggja eða þriggja tíma gagnsóknar undir þeim formerkjum, að fyrst stjórnarsinni sé að tala, geti enginn fundið að því, að stjórnarandstaðan tali enn meira og enn lengur. Þetta er skrýtin lógík en hún hefur samt verið notuð oftar en tölu verður á komið.

Nú reynir á góðan undirbúning þingmanna. Það er vandasamara að búa sig undir 20 mínútna markvissa ræðu en margra klukkustunda orðaflaum.