5.1.2008 21:37

Laugardagur, 05. 01. 08.

Morse lögregluforingi er fastagestur á laugardagskvöldum á DR 1 sjónvarpsstöðinni og væri það ekki vegna hans ætti ég ekkert erindi við sjónvarpið þau kvöld.

Á ruv.is segir:

„Borgarminjavörður Guðný Gerður Gunnarsdóttir segir óvíst að húsin við Laugaveg 4-6 eigi heima á Árbæjarsafni, ekki sé heppilegt að flytja gömul hús hvert sem er. Þau verði rannsökuð eftir helgi og reynt að komast til botns í því hvort þau geymi merkilega byggingasögu.

Í húskönnun Minjasafns Reykjavíkur frá árinu 2000 var mælt með á húsin yrðu varðveitt þar sem þau væru hluti af mikilvægri götumynd Reykajvíkur. Síðar var samþykkt deiliskipulag sem heimilaði að byggt yrði hótel og verlunarhúnæði sem er talsvert stærra en gömlu húsin. Borgarminjavörður segir að húsin hafi mest varðveislugildi þar sem þau eru nú. Eftir helgi verði þau rannsökuð að athugað hvort þau hafi nægilega mikið varðveislugildi til að fara á safn.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill láta útsvarsgreiðendur í Reykjavík kosta flutning þessara húsa og endurreisn í Hljómskálagarðinum! Margrét Sverrisdóttir og Svandís Svavarsdóttir vilja, að húsin verði á sínum stað. Björn Ingi Hrafnsson vill að húsin verði rifin. Þetta er afstaða hins einhuga meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.

Einkennilegt er, að nú fyrst skuli komist til botns í því, hvort húsin „geymi merkilega byggingasögu.“ Borgarstjóri hefur ekki áhuga á að kaupa húsin til að koma í veg fyrir, að þau hverfi. Það gildir annað um þessi hús en þau, sem stóðu á Stjörnubíóreitnum við Laugaveg og voru í eigu Jóns Ólafssonar - þar voru hús keypt á yfirverði til niðurrifs.

Hvers vegna á borgarstjórn Reykjavíkur svo erfitt með að framfylgja eigin ákvörðunum, þegar á hólminn er komið? Stjórnsýsla er ekki traustvekjandi, ef ekki er unnt að leiða mál til lykta í samræmi við niðurstöður hennar sjálfrar í eigin málum.