18.1.2008 21:01

Föstudagur, 18. 01. 07.

Var í Vík í Mýrdal klukkan 16.00 til að fagna 100 ára afmæli Lögbirtingablaðsins í boði Önnu Birnu Þráinsdóttur, sýslumanns og ritstjóra blaðsins. Ritstjórnin var flutt frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til Víkur 1. janúar 2007. Blaðið er nú gefið út rafrænt en aðeins 10 áskrifendur eru að prentaðri útgáfu þess. Hér má lesa ávarp, sem ég flutti af þessu tilefni.

Sagt var frá því, að Bobby Fischer, heimsmeistari í skák, hefði látist úr nýrnaveiki í gær. Jafnframt hefur komið fram, að fleira hrjáði hann, en honum hafi þótt óþarfi að leita sér lækninga - hann var 64 ára, þegar hann andaðist.

Ég minnist þess vel, þegar heimsmeistaraeinvígið var háð 1972. Ég fór í Laugardalshöllina og skynjaði andrúmsloftið. Á þessum árum var ég útgáfustjóri Almenna bókafélagsins og samdi við Freystein Jóhannsson, blaðamann á Morgunblaðinu, um að rita bók um einvígið.

Nú sé ég , að BBC rifjar upp, þegar Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hringdi í Fischer og hvatti hann til að berjast við Spassky. Nú er komin út bók um kalda stríðið milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, sem leggur einvígi Fischers og Spasskys til grundvallar.

Nýlega var ég á kaffihúsi í París. Eigandinn var á ferð meðal gesta og fagnaði þeim. Hann spurði okkur Rut, hvaðan við værum, þegar hann heyrði það, sagði hann: Ísland, ég man eftir því vegna heimssögulegs atburðar í upphafi áttunda áratugarins. Þar sem þetta var Frakki, taldi ég víst, að hann hefði í huga, þegar Pompidou og Nixon hittust á Kjarvalsstöðum 1973. Nei, sagði hann: Fischer gegn Spassky!

Fyrir nokkrum misserum sat ég fund evrópskra dómsmálaráðherra í Helsinki. Þá kom stjórnarerindreki frá Serbíu til mín og sagðist vilja óska mér til hamingju með hugrekki ríkisstjórnar Íslands. Fyrir hvað? spurði ég. Jú, fyrir að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt. Stjórnin í Belgrad hefði ekki haft þrek til að verða við ósk hans af ótta við reiði Bandaríkjastjórnar.

Erlendir fjölmiðlar láta þess getið við andlát Fischers, að hann hafi fengið skjól sem íslenskur ríkisborgari með samþykki alþingis, eftir að hafa komið sér út úr húsi hjá Bandaríkjastjórn og lent í fangelsi í Japan. Íslendingar hafi alltaf haft taugar til hans síðan 1972.