25.1.2008 21:39

Föstudagur, 25. 01. 08.

Sífellt verður skýrara, hve mikil mistök það voru hjá ungliðum vinstri flokkanna að efna til mótmæla við innsetningu nýs borgarstjóra og meirihluta í borgarstjórn 24. janúar. Ætlunin var greinilega að vega að Ólafi F. Magnússyni og fæla hann frá að taka við borgarstjóraembættinu. Tilraunin rann út í sandinn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi nauðsynlegan myndugleika, eftir að hún var kjörin forseti borgarstjórnar, til að ná tökum á fundinum og tryggja framhald hans, án þess að beita þyrfti valdi í því skyni að skapa fundarfrið. Fráleitt er að kenna framferði öskrandi fulltrúa ungliðahreyfinga Samfylkingar og vinstri/grænna við lýðræði.

Nýi meirihlutinn hefur þegar tekið ákvörðun um framtíð húsanna 4 til 6 við Laugaveg, sem Dagur B. og félagar köstuðu í fang ríkisins. Eftir að borgarstjórn gafst upp, með símtali frá Degi B., við að framkvæma fyrri ákvarðanir sínar um húsin, var ljóst, að ekki yrði leyst úr málinu án útgjalda á kostnað skattgreiðenda. Sú niðurstaða liggur nú fyrir, spurningin er hve mörg hundruð milljóna þarf að greiða úr borgarsjóði fyrir húsin.

Með húsakaupunum og ákvörðuninni um að viðhalda heildarsvip á Laugaveginum hrynur samkomulagið, sem Bolli Kristinsson, sem rak verslunina Sautján, gerði við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra, fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002. Laugavegurinn hefur staðnað í sex ár, eftir að samkomulagið var gert. Nú verður spennandi að sjá hvort, hann gangi í endurnýjun lífdaga. 

Borgaryfirvöld þurfa að leggja fé í fleira en gömul hús á barmi niðurrifs, ef þau vilja breyta yfirbragði miðborgarinnar. Þau verða jafnframt að ganga markvisst og skipuglega til verks við fleiri skipulagsákvarðanir en vegna þessara tveggja húsa við Laugaveginn.