11.1.2008 18:25

Föstudagur, 11. 01. 08.

Fréttin í morgun um, að ráðist hafi verið á óeinkennisklædda starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vekur óhug. Ráðist var á lögreglumennina við störf á Laugaveginum. Árásarmennirnir tengdust ekki því máli, sem var til rannsóknar.

Um áramótin voru félagar í fíkniefnadeildum lögreglu og tollgæslu heiðraðir af Stöð 2 fyrir vel unnin störf á árinu 2007. Þau verðlaun eru verðskulduð. Fíkniefnabarónum hefur kannski vaxið þessi viðurkenning í augum og þess vegna gert erlenda málaliða sína út af örkinni gegn lögreglumönnunum?

Áfram verður að leita leiða til að auka öryggi lögreglumanna Þetta síðasta atvik sannar enn, að þeir þurfa að vera við öllu búnir. Huga ber að þjálfun varðhunda fyrir lögregluna og sjá til þess, að hún hafi varnarbúnað með hæfilegan fælingarmátt.