1.1.2008 14:17

Þriðjudagur, 01. 01. 08. Nýársdagur.

Gleðilegt ár!

Í ágætu áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags komst Geir H. Haarde forsætisráðherra meðal annars svo að orði:

„Sérhver þjóð á sér merki og tákn um stöðu sína og samheldni. Fáninn er eitt þeirra en annað er þjóðsöngurinn. Hann hefur reynst mörgum þungur í skauti í söng og segja má að það hafi spillt nokkuð fyrir almennri notkun hans. Af þeim sökum beitti forsætisráðuneytið sér fyrir því, í samvinnu við fagmenn, að koma á framfæri nýrri og meðfærilegri útgáfu þjóðsöngsins til hliðar við hina eldri. Ég vona að vel hafi til tekist og að hið volduga og fagra lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar heyrist sungið við fleiri tækifæri en áður.

Þjóðsöngurinn okkar, lofsöngur sr. Matthíasar til Guðs vors lands og íslensku þjóðarinnar, er sjaldan sunginn allur, en hann hittir sannarlega þann streng í brjóstum okkar sem slíkur söngur á að snerta.“

Söngelskt fólk fagnaði þessum orðum forsætisráðherra og taldi þau í tíma töluð, þar sem þjóðsöngurinn væri oftar fluttur sem tónverk en sunginn og mætti þar sérstaklega nefna Ríkisútvarpið til sögunnar. Hvers vegna er þjóðsöngurinn til dæmis ekki sunginn eftir ávarp forseta Íslands á nýársdag? Hvers vegna er þjóðsöngurinn ekki sunginn í Ríkisútvarpinu um áramót? Orðið „þjóðsöngur“ ætti að vera stjórnendum Ríkisútvarpsins næg ábending um, hvernig flytja skuli verkið.

Íslenski fáninn sómir sér vel í sal alþingis við hægri öxl þess, sem situr á forsetastóli þingsins og ræðumanns í salnum. Þarna er farið að reglum um stað fánans. Skjaldarmerkið er við hægri öxl forsætisráðherra, þegar hann flytur áramótaávarp sitt. Þegar forseti Íslands flytur þjóðinni nýársávarp sitt úr sal Bessastaða, er íslenski fáninn hins vegar við vinstri öxl forsetans. Þetta er stílbrot.

Í fánareglum segir: „Sé fáni á stöng við altari, ræðustól eða ræðuborð, leiksvið eða annan sambærilegan stað, skal hann vera vinstra megin séð frá áhorfanda.“