16.1.2008 19:44

Miðvikudagur, 16. 01. 08.

Sérkennilegt er að fylgjast með því, hvernig fréttamenn ljósvakamiðlanna halda lífi í umræðum um skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara. Æsingagreinar í Fréttablaðinu eru gerðar að fréttaefni. Vegna greinar Sigurðar Líndals í Fréttablaðinu í gær hefðu fréttamennirnir mátt rifja upp orðin, sem höfð eru eftir bandaríska heimspekingnum Leo Strauss: Umræðum eða deilum lýkur, þegar annar aðilinn tekur að líkja hinum við Hitler og nasista.

Eftir að Sigurður Líndal hafði dæmt sig úr leik, kom Freyr Ófeigsson, fyrrverandi dómstjóri á Akureyri, fram á völlinn og ræddi fjálglega í Kastljósi, hve hættulegt væri að rugla reitum milli dómstóla og stjórnmála, þar yrðu menn að virða skýr skil, svo að ekki yrði hróflað við sjálfstæði dómstólanna eða dregið úr virðingu þeirra. Þess var látið ógetið í Kastljósi, að Freyr var í áratugi samtímis dómari og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Akureyri.

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður ritar grein í Fréttablaðið 16. nóvember, sem verður fréttaefni í ljósvakanum vegna þeirrar skoðunar hans, að skipan Þorsteins Davíðssonar í stöðu héraðsdómara hafi verið röng, ómálefnaleg og ólögmæt. Verulegar líkur séu á því að dómstólar ógildi ráðninguna, ef málið verði borið undir þá. Þótt þessi skoðun byggist ekki á öðrum rökum en óvild höfundar, ber fréttastofa sjónvarpsins það undir tvo keppinauta Þorsteins um dómarastarfið, hvort þeir ætli ekki að fara að ráðum Ástráðs og kæra til dómstólanna. Þeir segja ekki nei. Þá segir á ruv.is: „Báðir kváðust vera að hugsa sinn gang og hvorugur útilokaði að höfða mál til að hnekkja ákvörðun setts dómsmálaráðherra.“