31.1.2008 19:04

Fimmtudagur, 31. 01. 08.

Í dag var rætt um Evrópumál á alþingi með vísan til skýrslu utanríkisráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu. Skýrslan byggist á raunsæju mati á stöðu Íslands og er rökrétt framhald af skýrslu Evrópunefndar, sem birt var fyrir tæpu ári. Færði ég rök fyrir þessari skoðun í ræðu minni í umræðunum.

Eftir hádegi gerði ég grein fyrir skýrslu Evrópunefndar á málþingi, sem Samtök atvinnulífsins (SA) héldu að hótel Loftleiðum. Kom á óvart, að í kvöldfréttum Stöðvar 2, var rætt um þetta málþing eins og einhvern leynifund til að undirbúa aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hver skyldi hafa sagt fréttamanninum það? Eða var þetta bara hugarburður hans, af því að málþingið var lokað fjölmiðlum?