17.1.2008 8:57

Fimmtudagur, 17. 01. 08.

60 ára afmælishóf Davíðs Oddssonar í ráðhúsinu í dag var bæði fjölmennt og glæsilegt. Var ánægjulegt, að þau Ástríður skyldu gefa okkur vinum sínum tækifæri til að samfagna með þeim og Þorsteini á þessum degi.

Menn eru mismikil afmælisbörn. Ég sleppi mínum afmælisdögum en hef gaman að því að samfagna með vinum mínum - ekki síst ef ræðuhöldum er stillt í hóf, svo að gestir fái tækifæri til að ræða saman. Þannig var það í veislu Davíðs undir veislustjórn Kjartans Gunnarssonar - fyrir utan afmælisbarnið fengu aðeins þrír orðið: Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri og Halldór Blöndal, formaður bankaráðs seðlabankans.

Ég hef skrifað svo mikið um stjórnmálastörf Davíðs hér á síðuna undanfarin tæp 13 ár, að engu er við það allt að bæta. Davíð og við, sem taldir eru hans nánustu pólitísku samstarfsmenn, höfum náð þeim árangri, að andstæðingar okkar sjá ofsjónum yfir því.  Megi þeir hvíla í friði á þessum degi!

Í gær vakti ég máls á því hér á síðunni, að fréttastofa sjónvarps, sem flutti frétt um Þorstein Davíðsson Oddssonar (feitletrun mín til að vekja athygli á sérstakri kynningu) hefði flutt áhorfendum sínum tíðindi af greinum í Fréttablaðinu gegn því, að Árni M. Mathiesen skipaði Þorstein sem héraðsdómara, greinum, sem studdu niðurstöðu dómnefndar.

Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmaður, ritar grein í Morgunblaðið í dag um starfshætti dómnefndar. Hann bendir á, að hlutverk hennar sé að segja álit sitt á umsækjendum um dómaraembætti og spyr, hvaðan hún hafi umboð til að fella dóm um stjórnsýslu Árna M. Mathiesens. Þess sé hvergi getið í reglum um nefndina, að hún hafi umboð til slíkra starfa.

Þorsteinn Einarsson segir í grein sinni:

„Í greinargerð dómnefndar er ráðherra gagnrýndur fyrir ákvörðun sína og á því byggt að ráðherra hafi brotið lög með því að skipa ekki í embættið einn umsækjenda sem dómnefnd mat hæfastan. Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið að fara að umsögn hennar er röng. Dómnefnd misskilur hlutverk sitt og misles einfaldan lagatexta. Lögin eru skýr. Dómnefnd er falið eitt og aðeins eitt hlutverk: Að veita ráðherranum umsögn um umsækjendur, sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekst á hendur það lögskipaða hlutverk sitt að gera upp á milli umsækjenda. “ (Feitletrun Bj. Bj.)

Hvenær skyldi fréttastofa sjónvarps eða ritstjórn Kastljóss segja frétt af þessari grein Þorsteins Einarssonar eða láta ræða efni hennar? Þorsteinn er jú hæstaréttarlögmaður eins og Ástráður Haraldsson. Er það kannski málstaðurinn sem stjórnar ákvörðunum hjá hinu óhlutdræga RÚV?

Í morgun svaraði ég fyrirspurnum Sivjar Friðleifsdóttur, Framsóknarflokki, og Jóns Magnússonar, frjálslyndum, á þingi.

Siv spurði um fangelsi og lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu og sagðist ég vilja sameina í einni nýrri byggingu þetta tvennt, væri þess kostur. Ég sagði skipulagsmál vegna fangelsis á Hólmsheiði í óvissu vegna hugmynda um nýjan flugvöll þar og hefði það komið mér í opna skjöldu.

Ég tók þátt í umræðum um frumvarp utanríkisráðherra um varnarmálalög.