26.1.2010

Þriðjudagur 26. 01. 10.

Lárus L. Blöndal, hrl., sem undanfarin misseri hefur birt greinar með Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor, um lagalegar skuldbindingar vegna Icesave, verður gestur minn á ÍNN annað kvöld klukkan 21.30. Lögfræðiáhersla við lausn Icesave-deilunnar fékk nýjan þunga í gær, þegar Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, og Sigurður Líndal, lagaprófessor, rituðu grein í Morgunblaðið og sögðu Íslendinga ekki eiga að fallast á neinar kröfur Breta og Hollendinga, án þess að dómari segi fyrst álit sitt á greiðsluskyldunni.´

Sagt er, að bresk lögfræðistofa hafi bent Svavari Gestssyni, formanni Icesave-samninganefndar Íslands, á, að hann ætti að huga meira að lagaskyldum í samningaviðræðum við Breta en gert hefði verið. Svavar á að hafa svarað Bretunum á þann veg, að þeir skyldu engar áhyggjur hafa af lögfræðinni, þeir Indriði H. Þorláksson hefðu fundið snilldarlausn á málinu.

Nú vita allir, hve hörmuleg lausn málsins varð. Þjóðin býr sig undir að hafna henni í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni, frá því að lýðveldi var stofnað. Verði lausnin samþykkt, telja margir, að þjóðaratkvæðagreiðslan verði hin fyrsta og síðasta í sögu lýðveldisins. Stjórnarflokkarnir ræða nú að fresta atkvæðagreiðslunni til að hafa lengri tíma til stefnu, þótt þeir hafi til þessa látið eins og lífið sé að leysa í málinu og engan tíma megi missa.