5.1.2010

Þriðjudagur, 05. 01.10.

Í pistli hér á síðunni lýsi ég atburðum dagsins, það er ákvörðun Ólafs Ragnars og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Dæmigert er, að ráðherrar taka til við að kveinka sér undan viðbrögðum Breta og Hollendinga í stað þess að halda fram málstað Íslands. Að sjálfsögðu hefði utanríkisráðherra strax í dag átt að leggja af stað í ferð til nágrannalanda og Brussel til að kynna stöðuna. Össur lætur sér hins vegar nægja að efna til mótmæla gegn Ólafi Ragnari með því að hætta við að fara með honum til Indlands! Hverjum er ekki sama?

Greinilegt er, að neikvæðari tónn er í afstöðu vinstri-grænna til stjórnarsamstarfsins eftir atburði dagsins en Samfylkingarinnar, enda er þingflokkur vinstri-grænna klofinn ofan í rót í Icesave-málinu.

Engu er líkara en hér trúi stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar röngum fréttum erlendra fjölmiðla um, að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar.  Þetta er einkennileg afstaða, sem byggist á hræðsluáróðri stjórnarsinna í Icesave-málinu frá upphafi, um að eitthvað ógurlegt gerist, verði ekki gengið að afarkostunum, sem birtust í samningi þeirra Steingríms J. og Svavars. Það þjónar enn málstað ríkisstjórnarinnar, að sem dekkst mynd sé dregin af stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Þannig telja spunaliðar Samfylkingarinnar best að ná sér niðri á Ólafi Ragnari núna.

Frá stjórnmálafræðingum Samfylkingarinnar berast þau boð, að Ólafur Ragnar sé upp á sitt eindæmi að breyta eðli forsetaembættisins og búa til forsetaræði í stað þingræðis. Hann virðist telja, að hann hafi vald á borð við forseta Frakklands eða Finnlands. Í krafti þessara ranghugmynda sinna sé hann að skipta sér af málum, sem heyri alls ekki undir hann. Það er merkilegt, að stjórnlagafræðingar skuli líta þannig á, að Ólafur Ragnar hafi heimild til slíks valdabrölts í skjóli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Hvar ætli þeir finni þann lagabókstaf? Ekki í 26. greininni.