3.1.2010

Sunnudagur, 03. 01. 10.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, undraðist á vefsíðu sinni í gær, að forseti Íslands tæki sér umhugsunarfrest áður en hann staðfesti Icesave lögin með undirskrift sinni. Þá gagnrýndi Björn Valur, að Ólafur Ragnar Grímsson hefði verið fundað með fulltrúum InDefence hópsins að morgni 2. janúar, en þá komu um 1000 manns að Bessastöðum til að fylgja eftir kröfu InDefence-hópsins. Rúmlega 60.000 nöfn eru á listunum, um 93% með kosningarétt að sögn InDefence-manna. Krafan er um, að Ólafur Ragnar synji Icesave-lögunum. Björn Valur spyr, hvort Ólafur Ragnar ætli ekki að kalla málsvara Icesave-laganna á sinni fund.

Björn Valur bregður með skrifum sínum ljósi á þá staðreynd, að ákvörðun Ólafs Ragnars um að taka sér umhugsunarfrest, er enn eitt skref hans til að grafa undan þingræðinu samhliða því að breyta embætti forseta úr sameiningartákni í þátttakanda í pólitískum deilum. Það er engin tilviljun, að aldrei áður hefur fólk komið saman við Bessastaði til að hafa áhrif á ákvörðun forseta andspænis tillögu til hans frá alþingi og ríkisstjórn.  Lítilmennska ráðherra í Icesave-málinu birtist enn í því, að þeir mótmæla Ólafi Ragnari ekki.

Þegar Ólafur Ragnar steig óheillaskrefið 2. júní 2004 með því að synja fjölmiðlalögunum, breytti hann eðli forsetaembættisins. Síðan hefur vegur þess sífellt orðið minni. Nú stendur hann frammi fyrir kröfu tugþúsunda, sem höggva í sama knérunn. Í stað þess að taka ákvörðun tafarlaust eins og honum ber, þegar tillaga um undirritun laga er lögð fyrir hann, brýtur hann gegn öllum meginreglum, sem honum ber að fylgja til að halda embætti forseta Íslands ofan við pólitískar þrætur.

Ólafur Ragnar sagði í nýársávarpi sínu, að ekki væri brýnt að breyta stjórnarskránni. Hann veit sem er, að fyrsta breytingin yrði að svipta forseta synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. og mæla fyrir um aðra leið til að þjóðin geti sagt álit sitt á málum í atkvæðagreiðslu.