22.1.2010

Föstudagur, 22. 01. 10.

Furðulegt er, að fréttastofa RÚV skuli hafa hlaupið á sig á þann hátt, sem komið hefur í ljós varðandi fasteignakaup nafngreindra einstaklinga. Tilgangur fréttarinnar var að tengja þingmenn, núverandi og fyrrverandi, við óeðlileg fasteignaviðskipti. Fréttin stóðst ekki athugasemdir þeirra, sem nafngreindir voru, og hefur fréttaastofan beðist afsökunar. Uppákoman ætti að verða fréttastofunni víti til varnaðar.

Rústabjörgunarsveitin er komin heim frá Haiti og frásagnir félaga í henni færa Íslendinga nær þessum hrikalegu hamförum, þegar þeir lýsa reynslu sinni af björgunarstarfinu. Augljóst er, að sveitin hefur unnið mikið og gott starf þá daga, sem hún var á vettvangi.

Nú er rætt um, að ríkisstjórnin sé, með aðstoð erlendrar ríkisstjórnar, að leita að sáttasemjara við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Merkilegt er, að óskin um þennan sáttasemjara kemur einkum frá þeim, sem standa ríkisstjórninni næst. Óskin einkennist af vantrausti á ríkisstjórnina og forystumenn hennar.

Að kalla þurfi á þriðja aðila til málamiðlunar fellur að þeirri skoðun ríkisstjórnarinnar, að verði ekki farið að vilja hennar um að samþykkja Icesave-afarkostina muni Ísland einangrast á alþjóðavettvangi.

Allir, sem þekkja til starfa hinna alþjóðlegu matsfyrirtækja, segja, að niðurstöður þeirra ráðist af viðhorfi þess, sem hafi hagsmuna að gæta vegna þeirra. Íslendingar kynntust því, að mat á íslensku bönkunum gaf litla viðvörun um það, sem í vændum var í október 2008. Hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki hafa réttar fyrir sér núna?