12.1.2010

Þriðjudagur, 12. 01. 10.

Hér kemur loksins krækja á viðtal mitt við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem flutt var í sjónvarpsstöðinni ÍNN (www.inntv.is) hinn 30. desember síðastliðinn. Við ræddum um stöðu lögreglunnar meðal annars í ljósi búsáhaldabyltingarinnar svonefndu og skipulagðrar glæpastarfsemi.

Á morgun, miðvikudaginn 13. janúar, ætla ég að ræða við Harald Benediktsson, formann Bændasamtaka Íslands í þætti mínum á ÍNN. Mun ég einkum beina athygli að stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og framvindu mála, frá því að alþingi samþykkti ályktun sína um aðildarviðræður 16. júlí síðastliðinn.

Össur Skarphéðinsson er allt í einu tekinn til við að ræða um Icesave og nú halda hann og Steingrímur J. fund með forystumönnum stjórnarandstöðunnar án Jóhönnu. Greinilegt er, að Össur telur sig hafa stöðu til að ýta henni til hliðar. Hann segir svo digurbarkalega að „aðrir geti borið töskur“ Ólafs Ragnars á Indlandi og gerir þar með bæði lítið úr ferð Ólafs Ragnars og hlutverki utanríkisráðherra í fylgd með þjóðhöfðingja í opinberum heimsóknum.

Skyldi Össur hafa uppveðrast svona, þegar þrír formenn félaga atvinnurekenda lögðu til, að nefnd undir formennsku hans tæki að sér að semja upp á nýtt um Icesave?

Hér skal því spáð, að þessi goluþytur verði skammvinnur, því að allt stefnir hraðbyri í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisstjórnin mun eiga fullt í fangi með að verjast boðaföllum heima fyrir, enda berst hún þar fyrir lífi sínu vegna samninga sinna við Breta og Hollendinga. Í Haag og London vilja menn auðvitað, að Steingrímur J. og Össur sitji sem lengst.