24.1.2010

Sunnudagur, 24. 01. 10.

Kammersveit Reykjavíkur undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar var með tónleika á Myrkum músíkdögum í Listasafni Íslands. Flutt voru verk eftir Jón Leifs, Þorkel Sigurbjörnsson, John Speight, Leif Þórarinsson og Jón Nordal. Salurinn var þéttsetinn og fögnuður mikill. Verk Jóns Leifs, Endurskin úr norðri, fær ekki góða umsögn í ævisögu Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs. Í flutningi Kammersveitarinnar hljómaði það betur en umsögnin gaf til kynna.

Grétar Þór Eysteinsson, stjórnmálafræðingur á Akureyri, hefur sagt í fréttatímum RÚV , að sér þyki 7.200 manna þátttaka í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík boða lítinn áhuga á borgarstjórnarkosningunum.

Óljóst er við hvað Grétar miðar. Því má til dæmis velta fyrir sér, hvort hann hafi tekið mið af því í mati sínu, að nú voru frambjóðendum settar reglur um kostnað og auglýsingar, sem ekki hafa áður gilt. Er Grétar að miða við prófkjörið haustið 2006, þegar um 10.000 manns kusu, ef rétt er munað, og einn frambjóðandi varði allt að 25 milljónum króna til að kynna sig?

Hraðsoðin álit stjórnmálafræðimanna eru því miður alltof oft frekar byggð á tilfinningu en ígrunduðu mati á aðstæðum.

Nú er yfirmaður spunaliðs ríkisstjórnarinnar, Einar Karl Haraldsson, tekinn til við að tjá sig í útlöndum um óskaríkisstjórn sína til að taka við af þeirri íslensku við að halda fram málstað Íslands í Icesave-málinu. Segist hann helst líta til Noregs, Frakklands eða Þýskalands. Á þessu er mun einfaldari lausn: Að skipta um ríkisstjórn á Íslandi og fá þá til setu í henni, sem hafa þrek og getu til að verja málstað þjóðarinnar.

Um þessa helgi fyrir ári steig Samfylkingin það óheillaspor að slíta stjórnarsamstarfi með úrslitakostum um, að Jóhanna Sigurðardóttir yrði forsætisráðherra. Síðan hefur allt stjórnarfar gjörbreyst til hins verra, enda er límið í ríkisstjórn Jóhönnu óvild í garð annarra stjórnmálaflokka en ekki samstaða um farsæld til framtíðar.