2.1.2010

Laugardagur 02. 01. 10.

 

Sama dag og Ólafur Ragnar Grímsson flutti nýársávarp og hvatti til siðvæðingar stjórnmálanna og áréttaði nauðsyn þess, að fagmennska réði ferð við ákvarðanir kjörinna fulltrúa og embættismanna, birtist viðtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, fræðigrein Ólafs Ragnars. Gunnar Helgi var spurður, hvað hann teldi Ólaf Ragnar gera andspænis Icesave-lögunum. Gunnar Helgi svaraði:

„Það er engin leið að segja það með einhverri vissu en ég mundi halda að það væru frekar minni líkur en meiri [að Ólafur Ragnar neitaði, að skrifa undir]. Ef að Ólafur neitar að skrifa undir þetta þá stendur hann svolítið uppi vinalaus í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Það er alveg ljóst að mjög stór hluti þeirra sem vilja að hann neiti að skrifa undir eru litlir vinir Ólafs og mjög stór hluti þeirra sem að gera ráð fyrir að hann muni skrifa undir eru kannski helst þeir sem eru pólitískir vinir Ólafs.“

Að mati Gunnars Helga ráða ekki fagleg rök ákvörðun Ólafs Ragnars heldur útreikningur hans á því, hvar hann eigi helst vinaskjól. Þessi skoðun Gunnars staðfestir nauðsyn þess, að siðvæðingin hefjist á Bessastöðum. Ólafur Ragnar er örugglega þeirrar skoðunar, að eftir höfðinu dansi limirnir.

Fjórir lykilmenn í Icesave-málinu eru fyrrverandi ritstjórar Þjóðviljans: Ólafur Ragnar, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson og Þráinn Bertelsson. Hverjum dettur í hug, að Ólafur Ragnar vilji skera sig úr þessum hópi?