7.1.2010

Fimmtudagur, 07. 01. 10.

 

Merkilegt er að sjá, hve danskir leiðarahöfundar og Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, eru reiðir Íslendingum vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar. Kannski telja þeir sig eiga eitthvað í Icesave-samningunum, úr því að Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku til skamms tíma, gerði þá? Svo er ekki. Reiði blaðaeigenda í garð Baugs og Nyhedsavisen er svo djúpstæð og sár, að hún hverfur seint.  Danskir útgefendur töpuðu milljörðum króna, áður en Nyhedsavisen lagði upp laupana. Uffe Ellemann-Jensen líkist Stór-Dana í skrifum sínum, þeim finnst ekki leiðinlegt að taka Íslendinga á hné sér og tala niður til þeirra, ef svo ber undir.

Í Bretlandi gagnrýndu The Independent og The Financial Times í leiðurum afstöðu bresku ríkisstjórnarinnar til Íslands.

Stundum er látið eins og Icesave sé ótengt ESB-aðild Íslands. Þeir, sem vitnað er til hér að neðan, eru ekki sammála þeirri skoðun:

The Economist 7. janúar:

„Lagalega staðan er langt frá því að vera skýr. Er í raun ríkisábyrgð á slíkum innistæðutryggingum? Þó ráða ríkisstjórnir Bretlands og Hollands yfir nokkrum sterkum vopnum, þær geta til dæmis stöðvað aðild Íslands að ESB.“

Leiðari í Irish Times 7. janúar:

„Kreppan kann að tefja fyrir nýlegri ósk Íslands um ESB-aðild, ekki síst vegna þess að hvert aðildarríki getur beitt neitunarvaldi gegn nýjum umsækjendum. Brussel, sem sýndi Reykjavík vígtennurnar í gær, ætti ekki að gera illt verra með því að mæla með einstaklega hörðum samningi um mál, sem er í meginatriðum tvíhliða viðskiptadeila. Ísland á dálítinn slaka skilinn.“

Michael Hudson, prófessor við háskólann í Missouri, í The Financial Times 7. janúar:

„Íslenska ríkisstjórnin var tilbúin til að láta undan [kröfum Breta og Hollendinga] og taldi það nauðsynlegan herkostnað til að komast inn í ESB, en nýlegar skoðanakannanir sýna, að 70% kjósenda hafa misst áhugann á aðild. Þetta er sama hlutfall og tala þeirra, sem líklegt er að snúist gegn lögunum um að fara að kröfum Breta og Hollendinga. “