19.1.2010

Þriðjudagur 19. 01. 10.

Merkilegt er, að enginn fjölmiðill skuli kafa nánar ofan í það, sem fram kemur á vefsíðunni amx.is um Hamalajajöklana, bráðnun þeirra og tengslin við Ólaf Ragnar og Kristján Guy Burgess, alþjóðaráðgjafa hans, núverandi aðstoðarmann Össurar Skarphéðinssonar.

Heift Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa, í garð þeirra, sem hann telur, að hafi gert eitthvað á sinn hlut, náði nýjum hæðum í dag, þegar hann flutti vantraust á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, flutti um hana níðvísu á borgarstjórnarfundi og birti óhróður í hennar garð í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu.

Erfitt er að átta sig á því, hvað vakir fyrir Ólafi F.. Kannski er það bara að komast í fjölmiðlaljósið að nýju á kostnað Hönnu Birnu. Hvað sem því líður er ekki unnt að segja annað en að lítið lagðist fyrir kappanna. Skyldi hann trúa því, að þetta auki líkur á því, að hann nái endurkjöri í borgarstjórnarkosningunum í vor?