21.1.2010

Fimmtudagur, 21. 01. 10.

Sat í hádeginu fund samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll, þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Helgi Hjálmsson, formaður Félags eldri borgara, fluttu ræður.

Bjarni sagðist undrandi á því, hve illa gengi að fá stjórnarliða til að ræða viðfangsefni líðandi stundar með framtíðina í huga. Þeir kæmust ekki yfir fortíðina og vildu helst ekki annað en skamma Sjálfstæðisflokkinn. Velti hann því fyrir sér, hvenær andstæðingar sjálfstæðismanna kæmust á nýtt stig.

Þegar ég hlustaði á Bjarna, minntist ég þess, hve ég var undrandi við upphaf þingsetu minnar og á fyrsta kjörtímabilinu frá 1991 til 1995, að hlusta á hverja skammarræðuna eftir aðra um Sjálfstæðisflokkinn vegna viðreisnarstjórnarinnar, sem hafði farið frá völdum árið 1971 eða 20 árum áður. Líklegt er að fram yfir 2030 verði þeir á þingi, sem telji mestu skipta að skamma Sjálfstæðisflokkinn vegna þess sem gerðist 2008.

Helgi Hjálmsson minnti á, að 1. júlí 2009 hefði ríkisstjórnin ráðist á grunnlífeyri aldraðra. Hefði það ekki gerst áður í sögunni. Stefán Ólafsson, prófessor, væri hugmyndafræðingurinn á bakvið þetta og hefði hann komið fram af tvöfeldni gagnvart eldri borgurum.

Ég átti að vera á fundi í Borgarfirði í dag en hætt var við hann vegna veðurs. Stormurinn var svo mikill, að óvarlegt var að aka á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.