10.1.2010

Sunnudagur, 10. 01. 10.

Ef til vill er ekki eins undarlegt og virðist við fyrstu sýn, að helsta málefni, sem stuðningsmenn Icesave-afarkostanna ræða nú, sé, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi velt fyrir sér og rætt alla kosti í Icsave-málinu. Miðlarnir, sem áður voru kenndir við Baug, en eru nú í höndum ríkisvaldsins, leggja lykkju á leið sína til úthrópa Bjarna fyrir það, sem þeir kalla mismunandi skoðanir hans á leiðum í Icesave-málinu.

Þeir, sem sátu fundinn með Bjarna í Valhöll 9. janúar, vita, að þessi herferð Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á ekki við nein rök að styðjast. En hvers vegna er ekki undarlegt, að ráðist sé að Bjarna með þeim röngu fullyrðingum, að hann hafi skipt um skoðun? Jú, af því að stjórnarflokkarnir líta þannig á, að alla úr þeirra röðum, sem skipta um Icesave-skoðun beri að úthrópa. Árásirnar á Bjarna eiga þannig að minna aðra á, hvaða víti þeir skuli varast.

Í dag leit ég inn á skrifstofu, sem Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingur, opnaði í tilefni af framboði sínu í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninga hér í Reykjavík. Ég kynntist störfum Hildar fyrst, þegar ég var menntamálaráðherra og hrundið var af stað verkefni, sem kennt var við jafningjafræðslu gegn fíkniefnum. Þá kom strax í ljós dugnaður hennar og áhugi á að vinna að framgangi góðra málefna. Það yrði fengur að fá Hildi til starfa í borgarstjórn Reykjavíkur.