1.1.2010

Föstudagur, 01. 01. 10.

Gleðilegt ár!

Í dag skrifaði ég pistil um áramótaávörp Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar.

Haldi einhverjir, að Ólafur Ragnar hugsi um eitthvað annað en sjálfan sig, þegar hann tekur afstöðu til þess, hvort hann ritar undir Icesave-afarkostina, þekkja þeir ekkert til mannsins. Hann veit, að hann á skjól á vinstri vængnum, sem hefur barist upp á líf og dauða fyrir því, að  Icesave-skuldabagginn verði lagður á þjóðina. Ólafur Ragnar mun ekki kasta því skjóli frá sér, þótt tæplega 60 þúsund hafi skorað á hann að gera það.

Við upphaf nýs árs er ágætt að fá fordóma sína enn einu sinni staðfesta. Egill Helgason bregst með ósannindum við pistli mínum um áramótaávörpin. Egill tekur ávallt stöðu með Ólafi Ragnari, Jóhönnu og Steingrími J., þegar í harðbakka slær. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur enga burði til að framfylgja lögum um RÚV, sem mæla fyrir um óhlutdrægni starfsmanna þess. Egill skákar í því skjóli, en þættir hans njóta sífellt minni vinsælda, þótt 38 milljónum króna sé varið til þeirra á ári.

Samantekt á www.andriki.is í tilefni áramótanna sýnir slíka hlutdrægni fréttastofu og álitsgjafa RÚV, að þögn stjórnenda stofnunarinnar um leiðir til úrbóta og hollustu við lög um hana hljóta að kalla á endurskoðun á skyldunni til að greiða RÚV-nefskattinn. Ég greiddi atkvæði með nefskattinum í góðri trú um, að öll ákvæði nýrra laga um RÚV yrðu í heiðri höfð. Annað hefur komið á daginn, þegar litið er til fréttamiðlunar og álitsgjafa stofnunarinnar.