4.1.2010

Mánudagur, 04. 01. 10.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðað blaðamannafund á Bessastöðum á morgun en á miðvikudag heldur hann til Indlands. Vill hann hafa lokið við afskipti sín af Icesave-lögunum fyrir brottför. Synjun kann að leiða til stjórnarkreppu. Hafi Ólafur Ragnar gengið úr skugga um, að svo verði ekki á fundum með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. í gær, kann hann að synja og halda til Indlands. Verði stjórnarkreppa vegna synjunar, hættir hann annað hvort við að synja eða Indlandsferðina. Líklegt er, að hann velji fyrri kostinn og staðfesti lögin.

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir, að liggi við stjórnarskrárbroti vegna dráttar á ákvörðun Ólafs Ragnars. Forseta er ekki veittur neinn frestur til að velta lögum fyrir sér. Öll umhugsun af þessu tagi skapar óvissu og stangast á við vilja stjórnarskrárgjafans. Þá er öfugmæli að kalla synjun forseta málskot til þjóðarinnar. Ákvæði 26. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslu er vörn þings og þjóðar gegn því, að forseti bregðist löggjafarskyldu sinni með því að snúast gegn vilja alþingis. Lög halda gildi, þótt forseti synji þeim. Endanleg örlög laga ráðast síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema alþingi felli þau úr gildi, eins og gert var við fjölmiðlalögin.

Ólafur Ragnar hefur með aðstoð stjórnlagafræðinga, sem vilja ekki skýra stjórnarskrána með vísan til þess, sem að baki bjó við setningu hennar, skapað slíka óvissu um valdheimildir forsetaembættisins, að óhjákvæmilegt er að afnema 26. grein stjórnarskrárinnar og setja annars konar ákvæði um, hvernig staðið skuli að ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verulega hefur reynt á íslenskt stjórnkerfi frá bankahruni. Ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, kosið hefur verið til þings. Þótt ný ríkisstjórn og meirihluti þingmanna hafi komist að rangri niðurstöðu og haldið illa á mörgum málum, hefur stjórnkerfið sem slíkt staðist áraunina. Hið einkennilega er, að forsetaembættið, sem er í höndum eins manns, hefur ekki staðist prófið, hver svo sem niðurstaðan verður á morgun.