17.1.2010

Sunnudagur, 17. 01. 10.

Vek athygli á því, að á morgun, mánudag 18. janúar flytur dr. Tatyana Parkhalina, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum frá Rússlandi, erindi klukkan 12.00 í ráðstefnusal Þjóðminjasafns um samskipti Rússlands og NATO. Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðberg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boða til fundarins.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna, þar sem ég ræði enn um Icesave-málið og vek meðal annars máls á þeirri staðreynd, að flokksráð vinstri grænna, sem sat á fundi 15. og 16. janúar, minnist ekki einu orði á málið í ályktun sinni. Tel ég, að það sýni ótta forystu flokksins við, að flokksráðið hefði ályktað gegn stefnu Steingríms J. í málinu.

Er óvenjulegt, að flokksforingi í sporum Steingríms J. í Icesave-málinu leiti ekki stuðnings eigin flokksmanna við stefnu sína og störf. Að ekki skuli fjallað í fréttum um þögn flokksráðsins um Icesave-málið, sýnir annað hvort meðvirkni fréttamanna við þöggunina eða algjöran skilningsskort á fréttagildi þagnar flokksráðsins. Af minna tilefni hafa fréttamenn RÚV leitað álits stjórnmálafræðings.

Icesave-málið heldur nú lífi í ríkisstjórninni. Stjórnarflokkarnir sameinast í ótta sínum við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Stjórnarandstaðan á ekki, úr því sem komið er, að auðvelda þeim að losna undan henni. Hins vegar þarf að undirbúa markvissar aðgerðir, eftir að þjóðin hefur hafnað Icesave-lögunum, svo að stjórnvöld verði ekki tekin í bólinu eins og ríkisstjórnin 5. janúar. Ríkisstjórnin er líkleg til að ráðast á þjóðina með skömmum og gleyma því enn og aftur, að glíman er við bresk og hollensk stjórnvöld.