29.1.2010

Föstudagur, 29. 01. 10.

Strax og fréttir bárust af því, að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu haldið til Amsterdam með Steingrími J. Sigfússyni fór hrollur um marga sjálfstæðismenn, vegna þess hve mikla skömm þeir  hafa á framgöngu Steingríms J., sem hvað eftir annað hefur sýnt, að hann svífst einskis í þágu ráðherravaldanna. Töldu þeir, að Steingrímur J. væri að draga þá í gildru til að komast undan því, að Icesave-málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann vildi sannfæra stjórnarandstöðuna, að ekki yrði lengra komist gegn Bretum og Hollendingum.

Í dag hefur verið haldið þannig á fréttum af ferðinni, að Jóhanna heimasæta Sigurðardóttir hefur sagt frá fundinum og enn haldið í sömu rulluna um, að enn þurfi að bíða eftir einhverju, sem ekkert er eða verður.

Augljóst er, að nauðsynlegt er að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að sýna Bretum og Hollendingum svart á hvítu, að þeir standa andspænis einhuga þjóð. Hin mikla athygli, sem atkvæðagreiðslan fær á alþjóðavettvangi, verður til að þrýsta á stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi úr annarri átt en frá Íslandi, það er frá þeirra eigin kjósendum.

Samkvæmt mínum fréttum af viðræðunum í Haag var fjármálaráðherra Hollands og aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands alveg ljóst af orðum Bjarna Benediktssonar, að aldrei mundi nást nein sátt í Icesave-málinu hér á landi gagnvart kröfu þeirra, sem ríkisstjórn Íslands hefði samþykkt, að þeir fengju allt „sitt“ greitt. Héldu þeir fast við slíka kröfu, yrði dómur að falla um hana, svo að Íslendingar teldu sér skylt að verða við henni.

Sé þessi frétt rétt hefur Steingrímur J. ekki haft erindi sem erfiði. Á hinn bóginn hefur stjórnarandstöðunni gefist tækifæri til að árétta skoðun sína gagnvart þremur fjármálaráðherrum, sem eru sammála, það er hinum hollenska, breska og íslenska. Dugi þetta til að sýna Steingrími J. fram á, hve fjarri hann er að verja rétt þjóðarinnar, var ferðin ekki farin til einskis.