15.1.2010

Föstudagur, 15. 01. 10.

Hér er krækja á þátt minn með Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, á ÍNN miðvikudaginn 13. janúar.

Haldinn var þriggja tíma Icesave-fundur stjórnar og stjórnarandstöðu í stjórnarráðshúsinu í dag.

Varla er unnt að skilja ummæli stjórnarandstöðuformanna að loknum fundinum á annan veg en þann, að ef til vill megi ná samkomulagi um skipan nýrrar viðræðunefndar. Enn er ágreiningur um efnisatriði. Hann verður ekki brúaður, á meðan Steingrímur J. hvetur til þess, að þjóðin samþykki Icesave-lögin, eins og hann gerði á flokksráðsfundi á Akureyri í dag. Jóhanna sagði, að efnt til yrði næsta fundar einhvern tíma í næstu viku. Allur vindur virðist úr þessu sáttatali.

Norðurlandaferð Steingríms J. hefur ekki skilað neinum árangri. Svíar eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlanda. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Svía ráða afstöðu sænska stjórnarmannsins. Þeir vilja, að Íslendingar viðhaldi óbreyttum samningum við Breta og Hollendinga. Fulltrúi Hollendinga í framkvæmdastjórn sjóðsins hefur sagt, að Íslendingar verði að halda sig við Icesaves-samningana, annars hafi þeir verra af í AGS. Dominique Strauss-Kahn, forstjóri AGS, segist verða að taka mið af því, sem stjórn sjóðsins ákveður.

Bandaríkjastjórn gegnir lykilhlutverki í stjórn AGS. Hvergi hefur komið fram, að ríkisstjórn Íslands hafi snúið sér til hennar til að greiða fyrir afgreiðslu á máli Íslands í sjóðsstjórninni.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að slíta viðræðum við stjórnarandstöðuna. Yrði það gert, blasti enn betur við en ella, að ráðherrarnir eru ekki með nein áform til að leysa úr vanda þjóðarinnar. Þeir berja einfaldlega hausnum við steininn. Þetta staðfestir nauðsyn þess, að gengið sé til þjóðaratkvæðis, svo að hreyfing komist á Icesave-málið hér á landi. Án hennar gerist ekkert nýtt gagnvart öðrum.