18.1.2010

Mánudagur, 18. 01. 10.

Dr. Tatyana Parkhalina, sérfræðingur í samskiptum Rússlands og NATO, flutti fróðlegt hádegiserindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar í þéttsetnum fyrirlestrasal Þjóðminjasafns. Hún er þeirrar skoðunar, að vegna þróunar heimsstjórnmála, hræðslu við hryðjuverkaárásir úr suðri og Kínverja úr austri muni Rússar halla sér æ meira að Vesturlöndum. Valdamenn í Kreml óttist hins vegar vestræna stjórnarhætti, því að þeir muni kippa fótunum undan völdum þeirra og stjórnarháttum.

Síðdegis tók dr. Parkhalina þátt í málstofu með nemendum í Háskóla Íslands. Þá sat hún fyrir svörum hjá Boga Ágústssyni og verður samtal þeirra væntanlega á sjónvarpsdagskrá næsta sunnudag.