Þriðjudagur, 21. 07. 09.
Á mbl.is birtist í kvöld:
„Utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, hringdi í dag í Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og þrýsti á að Alþingi ljúki afgreiðslu Icesave-samkomulagsins og samþykki það. Greint er frá þessu í hollenskum fjölmiðlum í dag....
Verhagen segir í samtali við (hollenska blaðið) Trouw að það sé algjörlega nauðsynlegt að Ísland samþykki samkomulagið. Annars geti liðið langur tími þar til Ísland fái inngöngu í Evrópusambandið.
„Lausn Icesave-deilunnar myndi flýta fyrir umsóknarferli Íslands í Evrópusambandið," segir Verhagen. Það myndi sýna það og sanna að Íslendingar taki tilskipanir ESB alvarlega.“
Meginrök fyrir ESB-aðildarsamþykkt alþingis 16. júlí voru, að við þyrftum að vita um skilyrði aðildar. Hér kynnumst við þeim fyrstu.
Mbl.is segir okkur ekki, hvað Össur sagði við hollenska starfsbróður sinn. Mótmælti hann eða bukkaði sig og beygði? Hann hefur örugglega ekki spurt, hvers vegna Hollendingar vildu ekki, að dómari segði okkur Íslendingum, hvaða skyldur falla á okkur samkvæmt ESB-tilskipuninni, sem við eigum að taka alvarlega.