20.7.2009

Mánudagur, 20. 07. 09.

Í dag var tilkynnt:

  • Að endurfjármögnun bankanna þriggja, sem hrundu í byrjun október, fari fram eigi síðar en 14. ágúst nk.
  • Að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, að undangengnu samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.
  • Að samkomulagi sé náð við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verður að því að ljúka uppgjöri milli hins gamla og nýja Landsbanka, en það samkomulag er í eðli sínu all frábrugðið hinum tveimur, þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum. 

Búist er við að framlag ríkisins til endurfjármögnunar bankanna nemi um 271 milljarði íslenskra króna. Fallist kröfuhafar Glitnis og Kaupþings á það samkomulag sem undirritað hefur verið við skilanefndir bankanna tveggja lækkar fjárframlag ríkisins um 73 milljarða og verður samanlagt um 198 milljarðar króna. Í fjárlögum 2009 er heimild fyrir ríkissjóð að leggja bönkunum þremur til allt að 385 milljörðum króna. 

Í dag eru 40 ár liðin frá því, að bandarísku geimfararnir tveir Neil Armstong og Ed Aldrin stigu á tunglið. Endurvarpað var í RÚV frásögnum fréttamanna frá þeim tíma af þessum heimsögulega atburði. Athygli mína vakti, hve hófstilltir fréttamenn voru og komu þó efninu vel og greinilega til skila. Ég velti fyrir mér, glamrinu og gauraganginum í kringum einhvern sambærilegan atburð nú á tímum.

Fróðlegt væri,  ef gerður yrði samanburður á framsögn fréttamanna þá og nú. Ég kann betur að meta látlausa en skýra framsögn en þá sönglandi, sem einkennir framsögn æ fleiri sjónvarps- og útvarpsmanna. Walter Cronkite, fréttamaður og sjónvarpsþulur, andaðist á dögunum. Minningarbútar um framgöngu hans bera með sér hófsemi, sem ávann honum traust áhorfenda.

Þegar rætt er um málfarsráðunaut RÚV. eru málvillur á dagskrá. Hitt er ekki síður þýðingarmikið að huga að framsögninni.  Hún er mjög mismundandi og nægir þar að nefna fréttamenn til sögunnar.  Þá þarf að brýna fyrir útvarpsfólki að sýna erlendum orðum virðingu. Á dögunum talaði kynnir í tónlistarþætti alltaf um Copenheyjen - þegar vísað var til Copenhagen.