Mánudagur, 13. 07. 09.
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaður, og Þorbjörn Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, stofnuðu til umræðna um Icesave í þættinum Málefni á Skjá einum í kvöld og fengu að lokinni úttekt á málinu Davíð Oddsson til einkaviðtals og síðan þá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri-grænna, og Árna Pál Árnason, samfylkingarmann og félagsmálaráðherra, til að skiptast á skoðunum.
Davíð Oddsson sagði öllum hafa verið ljóst, að ríkisábyrgð hvíldi ekki á bönkunum eftir einkavæðingu þeirra. Hann lýsti undrun yfir spurningu um , hvort unnt væri að fara í mál gegn breska ríkinu fyrir breskum dómstóli. Taldi fráleitt að spyrja þannig um réttarríki. Bretum væri ekkert að vanbúnaði að stefna íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstóli, ef þeir teldu sig eiga kröfur á hendur því. Davíð þótti einnig skrýtið að spyrjendur hans virtust nálgast Icesave-málið á þann veg, að Íslendingar ættu engan annan kost en verða við kröfum Breta og Hollendinga. Breski seðlabankastjórin teldi íslenska ríkið ekki ábyrgt fyrir Icesave, þetta hefði hann sagt við sig í símtali í þann mund, sem bankarnir hrundu.
Steingrímur J. Sigfússon sagðist neyðast til að taka á þeim málum, sem lágu til afgreiðslu, þegar hann varð fjármálaráðherra, þar væri Icesave verst. Þá býsnaðist hann yfir því, að sitja uppi með þessi mál, en sjálfstæðismenn héldu uppi gagnrýni á sig. Þetta væri allt þeim að kenna. Bjarni Benediktsson minnti Steingrím J. á, að Icesave-samningurinn hefði verið gerður undir hans forsjá og á pólitíska ábyrgð hans en ekki annarra.
Í gær sagði ég hér frá því, sem Carl Bildt segir um umræður hér á landi um aðild að ESB og hann sé í startholunum. Því er haldið fram, að ég hafi íslenskað texta Bildts ranglega. Þessi túlkun á mínum orðum og hans byggist á því sérkennilega viðhorfi hér, að tillaga til þingsályktunar um aðildarumsókn að ESB frá ríkisstjórn og meirihluta utanríkismálanefndar, sé ekki tillaga um aðild að ESB heldur um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning. Að sjálfsögðu hefur Bildt ekki hugmynd um orðaleiki hér á landi um þetta mál og þá sérstaklega leiki vinstri-grænna, sem telja sér trú um, að umsókn um aðild að ESB sé ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu. Bildt veit, að umsókn um aðild þýðir aðeins eitt. Ég ritaði í dag pistil hér á síðuna um bitlaust álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis um ESB-málið.
Fyrir marga í hópi vinstri-grænna er vafalaust auðvelt að telja sér trú um, að allt annað felist í ESB-ályktuninni en þar stendur. Þeir töldu á sínum tíma einræði kommúnismans til marks um háþróað lýðræði.