4.7.2009

Laugardagur, 04. 07. 09

 

 

Ég fór í Lúxemborgargarðinn og sá þar hóp stunda taj tsjí hjá kínverskum leiðbeinanda og annan hóp æfa qi gong. Ég lét mér nægja að horfa á æfingarnar.

Síðan gekk ég að Pantheon. Andspænis þjóðargrafreitnum er ráðhús V. hverfis og borgaralegur hjónavígslustaður . Þar var nóg að gera í sumarblíðunni. Norðan við Pantheon er Sorbonne-háskóli og á vegg byggingar hans eru letruð nöfn afreksmanna í sögu mannsandans og þar til dæmis hoggið í steininn: Snorro Sturluson.

Frá Pantheon gekk ég að Notre Dame. Þar var röð fólks við dyr dómkirkjunnar. Biðin var ekki löng og jók það á helgi heimsóknarinnar, að innan dyra var sungin messa.  

Í le nouvel Observateur birtist langt viðtal við Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta. Þótti blaðamönnunum ástæða að taka fram, að óvenjulegt væri, að Sarkozy vildi ræða við þá, þar sem vikublaðið er talið vinstrisinnað og ekki hlynnt forsetanum, sem áréttaði afdráttarlaust, að hann væri hægrimaður en sér bæri sem forseta að leitast við að sameina þjóðina.

Nýlega flutti Sarkozy ræðu í Versölum, þar sem þingmenn í fulltrúadeild og öldungadeild þingsins komu saman. Í fréttum á Íslandi þótti merkilegast við ræðuna, að Sarkozy hefði mælt gegn því, að konur klæddust burkum í Frakklandi. Á það var ekki minnst í þessu viðtali, heldur hitt, að forsetinn hefði talað á þann veg, að hann hefði horfið frá áformum sínum um að gjörbreyta frönsku þjóðlífi. Sarkozy taldi þetta rangtúlkun á ræðu sinni.

Blaðamennirnir víkja að atviki á dögunum, þar sem maður var kallaður fyrir rétt fyrir að hafa hrópað að lögreglumönnum við skyldustörf: „Sarkozy je te vois.“ (Sarkozy, ég sé þig.) Var hann sakaður um að hafa vegið að virðingu forsetaembættisins. Sarkozy segist fyrst hafa frétt af þessu atviki í fjölmiðlum. Þetta væri fáránlegt og hann væri miður sín vegna þess, að maðurinn skyldi ákærður. Það væri ekki með sínum vilja.

Á göngu minni fór ég um lítið markaðstorg. Þar stóðu flokkssystkin forsetans og dreifðu stuðningmiða við hann og hvatningu um að veita flokki hans fjárhagslegan stuðning. Á forsíðu fjórblöðungsins stóð: Gripið til aðgerða, loforð efnd.  Frakkland breytist. Á baksíðunni  stóð:  Áfram skal haldið! Þá var þetta haft eftir Sarkozy: „Til að Frakkland komi sterkara úr krísunni en fyrir hana.“

Inni í fjórblöðungnum eru nefnd nokkur áhersluatriði til að árétta, hve forsetinn hefur staðið vel að málum. Meðal þess sem Sarkozy telur sér verulega til tekna er að banna auglýsingar í almannahljóðvarpi og sjónvarpi.

Skuldir franska ríkisins eru miklar og aukast enn á næsta ári, þegar tekið verður stórlán til að standa undir fjárlagahalla. Franski fjárlagavandinn er annars eðlis en hinn íslenski, þar sem hann á rætur að rekja til þess, að ríkið eyðir einfaldlega um efni fram en við  Íslendingar verðum að taka á okkur ofurþungt högg vegna bankahrunsins.

Höggið á okkur minnkar ekki vegna ICESAVE-samninganna. Þeim má líkja við rothögg. Er dæmalaust, að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins skuli mæla með því, að gengið sé að þessum afarakostum.

Líklega verður að setja það í samhengi við ákafann við að troða Íslandi í Evrópusambandið, hvað sem það kostar. Kostnaðurinn er óbærilegur með ICESAVE og síðan bætist við, að með aðild að Evrópusambandinu afsölum við okkur ráðum yfir auðlindum til lands og sjávar.

Nicolas Sarkozy er gagnrýnni á Evrópusambandið en málsvarar ESB-aðildar eða ESB-fjölmiðlar á Íslandi. Frönsk stjórnmálabarátta snýst, þrátt fyrir langa veru í ESB, að verulegu leyti um virðingu Frakklands. Enginn vill láta troða á henni. Þeir, sem nú segja, að Íslendingar verði bara að sætta sig við ICESAVE-samningana og best sé að ljúka málinu strax, hafa glatað allri virðingu fyrir íslenskum þjóðarhagsmunum. Þetta eru jafntframt þeir, sem telja sig sjálfskipaða til að leiða Ísland inn í Evrópusambamdið. Hvernig halda menn, að hagsmunum þjóðarinnar verði gætt á þeirri leið, þegar hugarfarið er á þann veg, að best sé að ljúka ICESAVE og aðildarviðræðum sem allra fyrst?