29.7.2009

Miðvikudagur, 29. 07. 09.

Óskiljanlegt er, að nokkrum detti í hug, að Ísland verði sett í sömu skúffu og N-Kórea, Búrma, Zimbabwe eða önnur slík ríki, þótt alþingi sætti sig ekki við Icesave-afarkosti. Það er svo sem í samræmi við annað í málflutningi Evrópusamtakanna, að slíkri framtíð skuli hótað á vefsíðu þeirra, sé ekki fallist á einhliða kröfur og skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta er svo grófur hræðsluáróður, að hann er þeim til háborinnar skammar, sem halda honum á loft. 

Pierre Lellouche, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði á blaðamannafundi í Reykjavík í dag, að tengsl væru á milli Icesave og ESB-aðildar Íslands.  Aðgangseyririnn er skýr.

Í spænska blaðinu El Pais sagði 27. júlí:

„Spænski flotinn lítur á fiskimið þessi (við Ísland) sem fjársjóð. Diego López Garrido, Evrópumálaráðherra Spánar, tók fram á  sunnudag í Brussel að Spánverjar „myndu hafa mikið að segja“ á meðan samningaviðræðurnar stæðu yfir til að koma í veg fyrir að fiskveiðihagsmunir þeirra skaðist á einhvern veg.“

Þetta er diplómatískt mál en skiljanlegt: Spænska ríkisstjórnin ætlar að komast í fjársjóðinn við Ísland. Saga Spánverja innan ESB einkennist af einarðri varðstöðu um það, sem þeir telja mikilvæga hagsmuni sína. Úthafsveiðar falla undir þá.

Að líkja afstöðu minni og Árna Þórs Sigurðssonar til NATO og aðildar Íslands að bandalaginu saman er fráleitt. Hann vill Ísland úr NATO ég vil virka þátttöku í NATO. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar, að varnarmálastofnun sé nauðsynlegt millistykki aðildarinnar. Hún er til marks um lúxus innan stjórnsýslunnar, sem ber að afmá. Yfirlýsingar gefnar í nafni hennar eru auk þess margar furðulegar.