9.7.2009

Fimmtudagur, 09. 07. 09.

Skrapp í Skálholt og hlýddi klukkan 20.00 á Skálholtskvartettinn flytja kvartett eftir Haydn og Dauðann og stúlkuna kvartett eftir Franz Schübert. Því meira, sem ég hlusta á verk eftir Schübert því hrifnari verð ég af tónsmíðum hans, Kvintettinn, sem ég hlýddi tvisvar á í Frakklandi í síðustu viku, er magnað verk, sem Schübert samdi rétt fyrir dauða sinn og heyrði aldrei fluttan. Dauðinn og stúlkan grípur áheyrandann einnig. Rosamunda, sem þau fluttu í Frakklandi, er hins vegar of daufgert verk fyrir minn smekk.

Veðurblíðan í dag hefur verið einstök hér í Fljótshlíðinni. Ég hef unnið að því að endurbæta hluta af gamalli girðingu í von um, að hún verði fjárheld. Mér hefur ekki orðið að þeirri von enn og er með ólíkindum að kynnast því, af hve mikilli þrá og þrjósku þær fáu kindur, sem una sér ekki í haga utan girðingar, sækjast eftir að troða sér inn á bannsvæði.

Mér telst til, að þær séu í kringum fimm ærnar, sem eru ekki til friðs, ef svo orða það. Eina af þeim á ég og er hún ekki barnanna best. Hún er grábotnótt og auðþekkjanleg vegna þess hve háfætt hún er og vör um sig. Dygði það ekki til, þekkist hún í ár af lömbunum sínum tveimur, en þau eru mórauðbotnótt. Þá hefur þriðja lambið, hvítt, hallað sér að henni, eftir að hafa týnt móður sinni.

Við rákum hana úr landinu í gær en í morgun var hún komin að nýju á bannsvæði og enn rákum við hana á brott. Ég sá hana síðan utan girðingar og sýndist mér hún stappa niður fæti af reiði, þegar ég nálgaðist. Í kvöld rak ég augun í hana af bæjarhólnum, þar sem hún var að leita að veikum bletti á gamalli girðingu.