11.7.2009

Laugardagur 11. 07. 09.

Að fáir þingmenn sitji í salnum undir ESB-umræðum í blíðviðrinu í dag, kemur ekki á óvart. Fjöldi þingmanna í salnum segir alls ekkert um, hvort þingmenn telji mál miklu skipta eða ekki. Ummæli fréttamanns RÚV mátti skilja á þann veg, að fámenni í þingsalnum væri til marks um, að þeir teldu  ESB-málið ekki mikilvægt. 

Þingmenn þurfa ekki að sitja í þingsalnum til að gera upp hug sinn. Þingfréttaritarar verða hins vegar að hlusta á allar umræður til að geta gefið af þeim skýra mynd í frásögn sinni.  Þegar þingfréttir snúast um, hve margir sitja í þingsalnum eða hvort þingfundir standa stundinni lengur eða skemur, er verið að segja frá því, sem engu máli skiptir, hafi menn áhuga á efni málsins.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur skýrt frá því, að hann lærði af Maltverjum að sækja má um þýðingarstyrki til Evrópusambandsins sendi ríki inn aðildarumsókn. Þessa kanínu dró Össur úr hatti sínum, þegar þingmenn drógu í efa, að 990 milljónir króna dygðu til að greiða kostnað við umsóknina, Talan 990 milljónir vekur grun um, að Össur hafi minnst gagnrýni á stjórnlagaþingið, sem ríkisstjórnin ætlaði að boða fyrir marga milljarði króna. 990 milljónir eru sölulegri tala en 1000 milljónir, milljarður.