30.7.2009

Fimmtudagur, 30. 07. 09.

Merkilegt er, að enginn fjölmiðill segi frá samtali Kristins R. Ólafssonar í Madrid í Spegli RÚV í kvöld við Evrópumálaráðherra Spánar um afstöðu hans til aðildar Íslands að Evrópusambandinu og áhuga Spánverja á Íslandsmiðum og íslenskum útgerðarfyrirtækjum, ef Ísland verður aðili að ESB. Ráðherrann minnti á, að Spánn yrði í forsæti ESB í upphafi næsta árs og kynni því að hafa mikið um væntanlegar viðræður við Íslendinga að segja. Spánn væri „heimsveldi í fiskveiðum“ og ætlaði að halda þeirri stöðu Íslendingar gætu ekki setið einir að eigin miðum og ekki heldur staðið gegn erlendri fjárfestingu í útgerð og fiskvinnslu yrðu þeir aðilar að ESB, því að þar giltu sömu reglur fyrir alla.

Fréttir bárust um það í dag, að málefni Íslands verða ekki á dagskrá stjórnarfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. ágúst. Af því tilefni ritaði ég pistil um málið.

Í dag fór ég á ÍNN-sjónvarpsstöðina og las inn stutta kynningu í tilefni af því, að miðvikudaginn 19. ágúst er stefnt að því, að ég verði þar með fyrsta hálftíma þátt minn. Hann verður annan hvorn miðvikudag klukkan 21.30.