17.7.2009

Föstudagur, 17. 07. 09.

Skrifaði pistil í morgun um ESB-atkvæðagreiðsluna á alþingi í gær. Hann birtist bæði hér á síðunni og á amx.is, vefsíðu, sem nýtur sívaxandi vinsælda. Efni þar  er greinilega mikið lesið. Er fagnaðarefni, að vefsíðu á borð við amx.is skuli haldið úti, þegar efnistök allra fjölmiðla eru eins og steypt í sama mót. Hvergi virðist metnaður til að líta á þróun mála á annan hátt en samræmist þeirri pólitísku rétthugsun, að ESB-aðild sé æðsta takmarkið.

Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, afhenti umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sænskum stjórnvöldum í dag. Sagði utanríkisráðherra það hafa verið nauðsynlegt til að málið kæmist inn á utanríkisráðherrafund ESB-ríkjanna 27. júlí.

Samfylkingarmennirnir í utanríkisráðuneytinu hafa svo snör handtök í málinu að engu er líkara en þeir séu í kapphlaupi. Þeir skyldu þó ekki óttast, að aðfarirnar við að knýja málið í gegn hafi veikt svo grundvöll ríkisstjórnarinnar, að hann sé að bresta?

Augljóst er á öllum viðbrögðum við ákvörðuninni um að sækja um ESB-aðild, að hún vekur hvergi fögnuð eins og almennt hefur gerst í umsóknarríkjum. Við öllum blasir, hvílíkum bolabrögðum var beitt til að þvinga málið fram á þingi. Sú aðferð ein hefði átt að duga til að þingmenn utan stjórnarflokkanna leggðu tillögu ríkisstjórnarinnar ekkert lið. Úr því að svo var ekki, verður hlutur þeirra, sem hlupu undan flokksmerkjum til að þjónusta ríkisstjórnina, verri en ella.