Sunnudagur, 19. 07. 09.
Kosið verður til þýska sambandsþingsins 27. september og er því spáð að kristilegir demókratar CDU/CSU sigri og er talið líklegt, að þeir myndi stjórn með frjálsum demókrötum, FDP, að kosningum loknum. Í utanríkisstefnu FDP kemur fram áhugi á því, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í því skyni að treysta og tryggja aðgang ESB að norðurskautinu. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur einmitt sagt, að hann ætli að „selja“ Ísland innan ESB með vísan til norðurskautshagsmuna ESB.
Í gær sagði ég frá því, að CSU, það er kristilegir demókratar í Bæjaralandi hefðu ekki áhuga á að ESB stækkaði á næstunni umfram Króatíu. Aðild hennar strandar á mótmælum Slóvena út af deilu um landamæri við Adríahaf og í hafinu.
Þýska sjónvarpsstöðin ZDF stofnar til sumarviðtala við þýska stjórnmálaleiðtoga. Nú um helgina var rætt við kanslaraefni þýskra jafnaðamanna, SPD, Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra. Hann var spurður um afstöðu til aðildarumsóknar Íslands. Sagðist hann hafa sagt forsætisráðherra Íslands, þegar þeir hittust í Brussel, að umsókn Íslands yrði vel tekið.
Nú er spurning, hvaða forsætisráðherra þetta var. Jóhanna Sigurðardóttir ræðir ekki ótilneydd við erlenda menn, hvorki stjórnmálamenn né aðra. Kannski hefur hún heldur aldrei komið til Brussel. Steinmeier varð utanríkisráðherra 2005, svo að hann hefur annað hvort hitt Halldór Ásgrímsson eða Geir H. Haarde og rætt málið við þá.
Steinmeier hefur aldrei háð kosningabaráttu áður. Hann komst til áhrifa og síðan valda innan SPD sem hægri hönd Gerards Schröders, þáverandi kanslara. Ólíklegt er talið, að hann verði langlífur á vettvangi þýskra stjórnmála, tapi SPD í kosningunum. Kannanir benda til, að svo verði.