Laugardagur, 25. 07. 09.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar settist að völdum hinn 1. febrúar 2009, var því heitið, að nú skyldi upplýsa almenning um stöðu sína og þjóðarinnar. Undanfarnar vikur hefur hvað eftir annað gerst, að upplýst er um gögn, sem að ætlan stjórnvalda átti að halda leyndum. Snerta gögnin meðal annars aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og gerð Icesave-samninganna.
Ríkisstjórnin hefur orðið að sætta sig við meiri umræður um Icesave en hún vildi og segja má, að með hverjum deginum magnist rökstudd gagnrýni á samningana. Steingrímur J. Sigfússon og Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður hans, eru til andsvara og er sótt að þeim úr þingflokki vinstri-grænna ekki síður en úr öðrum áttum. Samfylkingarfólkið þegir almennt þunnu hljóði vegna Icesave en lætur berast til fjölmiðla, að innan þingflokksins fjölgi efasemdarmönnum um málið. Reynt er að berja í brestina með vísan til þess, að án samninganna séu Íslandi allar bjargir bannaðar.
Þegar hollenski utanríkisráðherrann hótaði, að ESB-umsókn Össurar yrði tekin í gislingu, nema gengið yrði frá Icesave, lét Steingrímur J. sig hafa það að ráðast á ráðherrann fyrir að vera með „loftfimleika til heimabrúks“. Sannaðist þá enn, hve vel Steingrímur J. vill standa við loforð sitt við Jóhönnu um að þjóna ESB-lund Samfylkingarinnar. Líklegt er, að fyrir Steingrími J. vaki að efla fylgi við Icesave meðal þingmanna Samfylkingarinnar. Minna þá á, að þeir eigi honum skuld að gjalda fyrir ESB-stuðninginn.