2.7.2009

Fimmtudagur, 02. 07. 09.

 

 

Skálholtskvartettinn tók til við æfingar í les Murs klukkan 10.00 en hann býr sig nú undir þátttöku í sumartónleikunum í Skálholti um aðra helgi.

Í síðdegishvíldinni að loknum hádegisverði var friðurinn rofinn, þegar þrumuveður gekk yfir með úrhellisrigningu.

Við Rut héldum af stað í lítið nágrannaþorp, þar sem við hittum klukkan rúmlega 16.00 hjónin  Marie Claude og Jean Louis Robillard en hann er keramiker og hefur meðal annars gert listaverk, sem prýðir hlöðuna eða tónleika- og æfingasalin í les Murs.

Við hittum hjónin á tónleikunum þorpskirkjunni og mæltum okkur mót við þau, en fyrir fáeinum dögum komu þau úr tveggja vikna ferð til Íslands og létu mjög vel af henni.

Við skoðuðum vinnustofu listamannsins.  Eitt af því, sem Robillard fæst við er að gera keramik myndir eftir gluggum dómkirkjunnar í Bourges. Frá þeim hjónum ókum við til Bourges og skoðuðum sýningu á verkum Robillards í dómkirkjunni sjálfri. Hann sagði, að sömu glerlistamenn hefðu gert gluggana í Bourges og Chartres. Kirkjunnar eru hins vegar ólíkar að gerð, þótt báðar séu gotneskar. Ber meira á rómönskum áhrifum í  Bourges-dómkirkjunni.

Við kvöldmatarborðið í les Murs bættust að þessu sinni tveir ungir Hollendingar, skólafélagar dóttursonar Schröder-hjónanna. Þeir höfðu ekið frá Miðjarðarhafsströnd Frakklands þá um morguninn og kusu að tjalda utan við virkisvegg les Murs, við síkið. Sögðust þeir hafa ætlað í sumarleyfi í Króatíu en þar hefði rignt svo mikið, að þeim líkaði ekki. Litu inn á internet-kaffi og kíktu á veðurkort og sáu, að líklega yrði mest sól í Suður-Frakklandi og óku þá þangað og höfðu verið í fimm daga á Antibes-skaganum en voru nú á heimleið. Sögðust þeir hafa lagt 4000 km að baki í ferðinni.