Miðvikudagur, 15. 07. 09.
Misnotkun á fréttaþáttum RÚV í þágu ESB-aðildarsinna er orðin á þann veg, að trúverðugleiki fréttastofunnar er að þverra. Frá morgni til kvölds hefur í dag verið gengið á þingmenn Borgarahreyfingarinnar af fréttamönnum og þeir sakaðir um svik við kjósendur sína. Lauk Kastljósi kvöldsins á þann veg, að Þórhallur Gunnarsson fagnaði því sérstaklega, að Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur hafði í beinni sendingu frá alþingi tekist að fá Þór Saari, þingmann Borgarahreyfingarinnar, til að segja, að kannski mundi hann að lokum styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um ESB-aðildarumsókn.
Í dag kom í ljós, að utanríkisráðuneytið hafði stungið skýrslu um ESB-áhrif á íslenskan landbúnað undir stól. Var það gert með þeim rökum, að hún væri ófullgerð. Að kröfu þingmanna var skýrslan að lokum birt. Ástæðan fyrir undanskotinu kom þá í ljós. Efni skýrslunnar féll ekki að málstað aðildarsinna.
Þetta atvik og atburðarásin vegna Icesave-samninganna síðustu daga, þar sem embættismenn utanríkisráðuneytisins hafa einnig leitt ferðina, er aðeins smjörþefurinn af þeim vinnubrögðum, sem verða viðhöfð, samþykki alþingi ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar með hið bitlausa álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem veganesti. Þingmennirnir, sem standa að því að knýja ESB-aðildarumsókn í gegn á þessum ótrúverðugu forsendum, gengu flestir til kosninga með þau orð á vörunum, að styrkja þyrfti alþingi gagnvart framkvæmdavaldinu.
Í dag var einnig sagt frá því, að norski seðlabankastjórinn stæði að baki lögfræðingum bankans, þegar þeir finna að efni Icesave-samninganna. Þar með féll sú röksemd Svavars Gestssonar, formanns samninganefndarinnar, og Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, að lögfræðiálitið væri marklaust, af því að það væri ekki formlega frá seðlabankanum.
Það þarf vissulega sérstakt hugarfar til að komast að þeirri niðurstöðu, að efni lögfræðiálita ráðist af því, hvort þau eru formleg eða óformleg. Að svo kunni að vera, segir hins vegar mikið um viðhorf Svavars og Árna Þórs til slíkra álita. Þegar ég starfaði í borgarstjórn undir meirihluta R-listans, taldi ég, að R-listinn kallaði stundum eftir áliti lögfræðinga til að knýja fram niðurstöðu sér í hag. Mér þótti það ekki alltaf merkileg lögfræði.
Á www.wordsmith.org má lesa í dag:
„scree
PRONUNCIATION:
MEANING:
noun: Rock debris at the base or the side of a mountain.
ETYMOLOGY:
From Old Norse skritha (landslide). “