Föstudagur, 31. 07. 09.
„Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar:Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, er þegar tekinn til við að undirbúa sjónvarpsþátt sinn á ÍNN. Í nýjustu dagbókarfærslunni á heimasíðu sinni segist hann hafa farið inn á stöðina til að lesa inn stutta tilkynningu í tilefni af því að þáttur hans hefur göngu sína á ÍNN þann 19. ágúst.
„Þetta kom þannig til að Ingvi Hrafn bauð mér að taka svona þátt og ég tók því boði," segir Björn, en Ingvi Hrafn Jónsson er stjórnarformaður stöðvarinnar og einn af þáttastjórnendunum.
Björn segist enn eiga eftir að leggja niður fyrir sér hvernig þátturinn verður, en hann verður hálftíma langur annan hvern miðvikudag og mun bera heitið Björn Bjarna.
Björn segist búast við að fá til sín gesti og fjalla bæði um innlend og erlend málefni:
„Allt milli himins og jarðar - ég hef frjálsar hendur, svo það eru ekki sett nein skilyrði um efnistök. Ég spila þetta af fingrum fram."“
Í dag tók um 45 mínútur að aka frá Hveragerði til Selfoss. Þrengingin var við Ölfusárbrúna og hringtorgið handan við hana á Selfossi. Umferðin var mikil allt að Hvolsvelli. Húsbílar, tjöld og mannfjöldi er mikill í Fljótshlíðinni. Kvöldkyrrðin var sólböðuð undir heiðskírum himni.